Hvað vilja flokkarnir í utanríkismálum?

mbl.is/Hjörtur

Fríverslun, hernaðarbandalög og kjarnorkuvopn. Utanríkismálin eru kannski ekki mest í umræðunni í aðdraganda þingkosninga en engu að síður skiptir staða Íslands á alþjóðavettvangi miklu máli. Hvað vilja flokkarnir sem eru í framboði gera í þessum málum? Mbl.is hefur tekið saman helstu atriðin í stefnum þeirra hér fyrir neðan.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð: Standi utan hernaðarbandalaga

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að Ísland taki þátt í þróunarsamvinnu með myndarlegum hætti og stórauki framlög til málaflokksins til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar og markmið Sameinuðu þjóðanna. VG vill að Ísland standi utan hernaðarbandalaga, tali fyrir friði í alþjóðasamfélaginu og beiti sér fyrir pólitískum lausnum á átökum. Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu (NATO) og biðjist afsökunar á þátttöku sinni í hernaðaraðgerðum á þeirra vegum. Íslendingar beiti sér ennfremur fyrir banni gegn kjarnorkuvopnum og afvopnun á alþjóðavettvangi. Ísland beiti sér sömuleiðis gegn arðráni stórfyrirtækja á alþjóðavísu, taki forystu í alþjóðlegum umhverfismálum og standi utan Evrópusambandsins.

Frétt mbl.is: Hvað á að gera við stjórnarskrána?

Sjálfstæðisflokkurinn: Frjáls viðskipti á alþjóðavettvangi

Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland beiti sér fyrir frjálsum viðskiptum á alþjóðavettvangi. Aukin utanríkisviðskipti séu forsenda bættra kjara íbúa fátækustu ríkja heimsins. Flokkurinn telur hagsmunum landsins best borgið utan Evrópusambandsins og leggur áherslu á að treysta tengslin við Bretland vegna útgöngu landsins úr sambandinu. Brýnt sé ennfremur að leita eftir fríverslunarsamningum við Bandaríkin og ríki víðar um heiminn. Flokkurinn er hlynntur áframhaldandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO), varnarsamningnum við Bandaríkin, Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) of EES-samningnum.

Samfylkingin: Innganga í Evrópusambandið og upptaka evru

Samfylkingin vill að Ísland gangi í Evrópusambandið og taki upp evru og að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um frekari viðræður um aðild Íslands að sambandinu. Flokkurinn vill að Ísland styðji inngöngu Palestínu í fjölþjóðlegar stofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar, og að palestínskum yfirvöldum verði boðið að opna sendiráð á Íslandi. Samfylkingin vill einnig semja um fríverslun við Grænland og efla samskipti ríkjanna á öllum sviðum. Viðskiptasamningar Íslands og íslenskra fyrirtækja taki ætíð mið af mannréttinda- og umhverfissjónarmiðum og landið beiti sér fyrir því að auðvelda þróunarlöndum þátttöku í alþjóðaviðskiptum.

Miðflokkurinn: Áframhaldandi gott samstarf við aðrar þjóðir

Miðflokkurinn vill halda áfram virku alþjóðasamstarfi Íslands. Meðal annars við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og varnarsamstarf Atlantshafsbandalagsins (NATO). Flokkurinn leggur áherslu á áframhaldandi gott samstarf við aðrar þjóðir. Meðal annars með gerð fríverslunarsamninga. Miðflokkurinn hafnar hins vegar alfarið inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Frétt mbl.is: Hyggjast leysa húsnæðisvandann

Píratar: verði miðstöð tjáningar- og upplýsingafrelsis

Píratar vilja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og að vilja þjóðarinnar verði fylgt í þeim málum. Flokkurinn vill lögfesta alþjóðasamninga um réttindi barna og um réttindi fatlaðs fólks. Píratar vilja ennfremur að Íslendingar taki virkan þátt í alþjóðasamstarfi. Sérstaklega þegar komi að vernd og eflingu mannréttinda, réttindum kvenna, loftslagsmálum og tækniþróun. Þá vill flokkurinn fylgja eftir þingsályktun um IMMI - Alþjóðlega stofnun um upplýsinga- & tjáningarfrelsi og gera Ísland að miðstöð tjáningar- og upplýsingafrelsis í heiminum.

Framsóknarflokkurinn: Endurmeta veruna í EES og Schengen

Framsóknarflokkurinn telur að meginmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu eigi að vera að gæta hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi og beita sér fyrir því að alþjóðasamningar og lög séu virt og þjóðir leysi deilumál sín friðsamlega. Hagsmunir smáríkja séu að stuðla að alþjóðlegri samvinnu til þess að mæta þeim ógnum sem virða hvorki landamæri né leikreglur alþjóðakerfisins. Flokkurinn hafnar aðild að Evrópusambandinu, telur að gæta þurfi vel að hagsmunum Íslands vegna útgöngu Breta úr sambandinu og að ástæða sé til þess að meta árangurinn af aðild Íslands að EES-samningnum og Schengen-samstarfinu og kanna aðra valkosti. Framsóknarflokkurinn styður áframhaldandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Viðreisn: Viðræður um inngöngu í Evrópusambandið

Viðreisn vill að Ísland sé virkt í samstarfi þjóða á alþjóðlegum vettvangi með það að markmiði að efla mannréttindi og viðskipti og stuðla að friði. Mikilvægt sé að efla enn frekar samvinnu Íslands og annarra ríkja á vettvangi Norðurlandanna, Evrópusamstarfs, Sameinuðu þjóðanna, Norðurskautsráðs og Vestnorræna ráðsins. Flokkurinn vill að Ísland verði virkari þátttakandi í EES-samstarfinu og styður áframhaldandi viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu og þjóðaratkvæði um það. Viðreisn styður áframhaldandi aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO).

Flokkur fólksins: Þátttaka í viðskiptaþvingunum endurskoðuð

Flokkur fólksins styður aðild Íslands að Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og er fylgjandi aðild landsins að EES-samningnum. Hins vegar hafnar flokkurinn aðild að Evrópusambandinu. Flokkurinn styður ennfremur endurskoðun á þátttöku Íslands í Schengen-samkomulaginu líkt og aðrar eyþjóðir hafi gert með því að herða á landamæraeftirlit landsins með auknu vegabréfaeftirliti. Ennfremur vill flokkurinn endurskoða þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi.

Björt framtíð: Betur borgið innan Evrópusambandsins

Björt framtíð telur að Íslandi sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Þjóðaratkvæði fari fram sem fyrst um það hvort hafnar verði á ný viðræður um aðild að sambandinu. Flokkurinn vill landa góðum samningi sem þjóðin geti samþykkt að lokinn upplýstri umræðu. Með inngöngu í Evrópusambandið opnist leið til upptöku evru þegar skilyrði skapist til þess. Þó það sé ekki töfralausn sé það að öllum líkindum sigurstranglegasta leiðin í átt að efnahagslegum stöðugleika. 

Alþýðufylkingin: Barátta gegn heimsvaldastefnunni

Alþýðufylkingin leggur áherslu á baráttu gegn heimsvaldastefnunni og fyrir friði og stöðugleika í heiminum. Fyrir vikið sé flokkurinn alfarið á móti meðal annars aðild Íslands að Evrópusambandinu, Atlantshafsbandalaginu (NATO). Alþýðufylkingin hafnar einnig frjálsu flæði fjármagns til og frá landinu sem flokkurinn telur að grafi undan efnahagslegu sjálfstæði og flytji auðæfi frá fólkinu og úr landi. Alþýðufylkingin vill ennfremur að Ísland standi að banni við kjarnorkuvopnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert