Upplýsa þingflokka um stöðu mála

Frá fundi flokkanna fjögurra í gær.
Frá fundi flokkanna fjögurra í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú standa yfir þingflokksfundir flokkanna fjögurra sem nú freista þess að mynda ríkisstjórn, en þetta kom fram samtali við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri-grænna, í gær. Jafnframt sagði hún að fulltrúar flokkanna fjögurra, Vinstri-grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks, myndu halda áfram stjórnarmyndunarviðræðum seinni partinn í dag eða í kvöld.

Markmið þingflokksfundanna mun hafa verið að fara yfir og upplýsa flokkana um stöðu viðræðna. Að sögn Katrínar eru flokkarnir þegar komnir langleiðina með að ræða heildarmyndina. Þá hafa mál eins og uppbyggingarmál, heilbrigðismál, menntamál, samgöngur, kjaramál, staða á vinnumarkaði og kjör aldraðra og öryrkja þegar verið rædd.

Þó sagði Katrín að viðræðurnar væru ekki komnar á þann stað að þau væru farin að útkljá einstök mál, en niðurstöður myndu að öllum líkindum liggja fyrir á morgun, mánudag.

Ekki náðist í formenn flokkanna fjögurra við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert