Tilboð um að leiða góða stjórn stendur

Katrín býst ekki við því að forsetinn veiti einhverjum umboðið …
Katrín býst ekki við því að forsetinn veiti einhverjum umboðið í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Staðan er sú að við erum að eiga samtöl og þau samtöl munu halda áfram í dag. Þau eru ekki komin á stig formlegra viðræðna heldur eru forsvarsmenn þessara flokka að tala saman,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, um óformlegar viðræður Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um mögulegt stjórnarsamstarf.

Katrín segist ekki geta sagt til um það hvort hún búist við því að farið verði í formlegar viðræður á milli þessara flokka á næstu dögum. „Við sjáum bara hverju þessi samtöl skila.“ Hún á ekki von á því að forsetinn veiti einhverjum umboð til stjórnarmyndunar í dag.

Katrín bendir á að formenn flestra flokka hafi rætt saman síðustu daga og að ýmis mál hafi skýrst í þeim samtölum. „Eins og kunnugt er hafa allir verið að tala við alla undanfarna daga. Það liggur líka fyrir að mál hafa skýrst, við höfum til að mynda átt í samtölum við Samfylkinguna um að skoða samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en Samfylkingin hefur hafnað því. Þannig að við erum að horfa á það hvort það sé flötur á því að ræða við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Allt er þetta á þessu óformlega stigi og í raun og veru heldur það bara áfram.“

Ekki farið að ræða málefnin

Hún segir þessa þrjá flokka ekki komna á það stig í viðræðum sínum að farið sé að ræða málefnin að einhverju ráði. „Ég hef sagt það bæði fyrir og eftir kosningar að það eru stór og mikilvæg mál sem blasa við. Það er uppbygging innviða í velferðarsamfélaginu í heilbrigðis- og menntakerfinu, en líka samgöngukerfinu í landinu. Svo auðvitað staðan á vinnumarkaði, hvernig við ætlum að halda á málum, sama hvaða ríkisstjórn tekur við. Þannig að auðvitað eru það þessi mál sem þarf að ræða.“

Aðspurð hvort það sé skilyrði af hálfu Vinstri-grænna að Katrín leiði viðræður þessara flokka segir hún: „Eins og ég segi þá erum við bara ennþá í þessum óformlegu samtölum. Ég hef sagt allan tímann að við séum tilbúin að leiða ríkisstjórn um góð mál og það stendur enn, það góða tilboð.“

Útiloka ekki að bæta við fleiri flokkum

Þingflokkur Vinstri-grænna fundaði í morgun þar sem farið var yfir stöðuna, þau samtöl sem hafa átt sér stað og þau samtöl sem þarf að eiga. Katrín segir þingmenn flokksins hafa lýst sinni sýn á þessar viðræður, en það liggi alveg fyrir að samstarf þessara þriggja flokka hafi ekki verið fyrsti kostur Vinstri-grænna.

Katrín segist hafa haldið áfram samtölum við formenn hinna þriggja flokkanna sem reyndu fyrir sér í fyrstu atrennu stjórnarmyndunarviðræðna, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata, um hvort möguleiki sé á því að bæta fleiri flokkum við og taka upp viðræður á nýjan leik. Sjálf hafi hún þó talið að þessir fjórir flokkar væru nóg til að mynda ríkisstjórn. „Við útilokuðum ekki að bæta við fleiri flokkum, en það er flóknara. Þannig lít ég á málið,“ segir Katrín en bendir jafnframt á að það liggi fyrir að ekki hafi verið vilji fyrir því hjá öllum flokkum að fá Viðreisn inn í samstarfið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert