„Þetta hefur bara gengið vel“

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Hari

„Við höfum notað undanfarna tvo daga til þess að tala saman og farið í þessa kortlagningu sem er alltaf nauðsynleg,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is en fundað var í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í dag. Auk Katrínar hefur Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, tekið þátt í viðræðunum fyrir hönd flokksins.

„Stóru málin sem við höfum verið að leggja áherslu á og teljum höfuðatriði að setja á dagskrá stjórnmálanna er uppbygging í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Síðan er það sú staða sem blasir við á vinnumarkaði og félagslegar úrbætur í tengslum við það og hvernig við getum náð sátt við vinnumarkaðinn líka um ákveðnar félagslegar úrbætur. Þannig að þetta er það sem hefur verið fyrirferðarmest í þessari kortlagningu til þessa en líka önnur mál á sviði umhverfismála, jafnréttismála og fleiri málaflokka.“

„Þetta hefur bara gengið vel, þessi yfirferð. Við erum ekki með boðaðan fund á morgun en munum núna fara til okkar þingflokks seinnipartinn á morgun og fara yfir stöðuna með honum. Þar standa málin,“ segir Katrín. Ákvörðun um frekari fundahöld verður síðan tekin í framhaldi af þingflokksfundum. Katrín segir aðspurð að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort óskað verði formlega eftir stjórnarmyndunarumboði.

Katrín segir að það fari að koma að því að fá þurfi botn í það hvort viðræður flokkanna þriggja séu eitthvað sem sé hægt að klára og það skýrist væntanlega strax eftir helgi. Hún minnir á að það sé ekki langur tími frá því að síðustu viðræðum fjögurra flokka hafi verið slitið en það gerðist á mánudaginn síðasta. Spurð um skiptar skoðanir í baklandi VG um mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn segir hún:

„Það liggur alveg fyrir af minni hálfu að við vorum alveg hrein og bein fyrir kosningar að við útilokuðum engan og við vildum leiða ríkisstjórn sem væri um tiltekin mál og vildum vinna með þeim sem vildu vinna með okkur að þeim málum. Það var algerlega klárt. Það er nú ástæðan fyrir því að við erum í þessu samtali núna og ég segi það bara að um það snýst pólitík, að taka afstöðu til þeirra málefna sem maður getur náð fram fyrir samfélagið og þeirra áhrifa sem maður getur náð í þeim málum og það er náttúrulega það sem við munum fara yfir í okkar þingflokki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert