Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, segir Vinstri græn sýna hressandi kjark með því að fara í stjórnarmyndunarviðræður með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. „Mér finnst þið sýna hressandi kjark sem vonandi hristir upp í þessu,“ skrifaði Katrín við færslu á Facebook-síðu Svandísar Svavarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, fyrr í dag, en í færslunni hún lofaði Katrínu, formann sinn, í hástert. Hún væri bæði málefnaleg og sannfærandi.
Katrín Jakobsdóttir var gestur í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun þar sem hún sagðist vera vel meðvituð um að það væri áhætta fyrir flokkinn að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki.
„Ég veit að þetta stjórnarsamstarf getur komið niður á okkar fylgi. Það er heldur ekki vinsælt að vera í ríkisstjórn,“ sagði Katrín og minnti á að ríkisstjórnarsamstarf VG og Samfylkingarinnar hefði einnig komið niður á fylgi flokksins og flokkurinn þá verið við það að detta út af þingi. „Þannig að ég átta mig alveg á að þetta er mikil áhætta fyrir okkur og okkar innra starf og félaga.“
Katrín kvaðst hins vegar telja að þegar komi að því að horfa á hlutverk stjórnmálanna þá sé mikilvægara að gera ákveðnar málamiðlanir til að ná árangri í samtímanum, frekar en að neita að gera málamiðlanir í von um meiri árangur seinna.
Katrín Júlíusdóttir segir nöfnu sína hafa hitt nokkra nagla í þættinum. „Enginn af þeim 8 flokkum sem kjörnir voru til þings fengu lykilinn að hjarta þjóðarinnar. Þá þarf að leggja mat á stöðuna; ætla öfl frá vinstri að miðju alltaf að kasta inn handklæðinu eftir allar kosningar sem þau fá ekki skýran meirihluta [í] og láta hinum þetta allt eftir og bíða eftir næstu kosningum eða ætla þau að reyna að þoka málum sínum áfram?“ skrifaði hún jafnframt við færslu Svandísar.
Samkvæmt nýrri könnun MMR um fylgi stjórnmálaflokka hefur stuðningur við Vinstri græn dalað um 3,6 prósentustig frá kosningum. Á sama tíma hefur fylgi Samfylkingarinnar aukist. Þá sögðust aðeins 60 prósent þeirra sem kusu Vinstri græn myndu kjósa flokkinn aftur ef kosið yrði í dag. Samkvæmt könnuninni sögðust 15 prósent þeirra sem kusu Vinstri græn ætla að kjósa Samfylkinguna nú.