„Þetta gerist í dag eða á morgun“

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta gengur ágætlega,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is. Línur munu skýrast í stjórnarmyndunarviðræðum VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í dag eða á morgun.

Við erum í raun og veru að reyna að leggja lokahönd á þetta með það fyrir augum að geta kallað flokksráð saman um miðja viku. Markmiðið er að ný ríkisstjórn taki við hérna í lok vikunnar,“ segir Sigurður.

Tveggja sólarhringa fyrirvara þarf þegar flokksráð VG er kallað saman og Sigurður segir að markmiðið sé að flokksráðin fundi á miðvikudag. Því þurfi eitthvað að gerast í síðasta lagi á morgun. „Þetta gerist í dag eða á morgun.

Hann segir að formenn flokkanna þriggja hittist í dag eins og þeir hafi gert undanfarið. „Við höfum verið að hittast á hverjum einasta degi. Stundum höfum við setið allan daginn og stundum eitthvað skemur, það fer eftir verkefninu. Ef ég fer í myndlíkinguna að fara yfir ána þá erum við að krafsa í bakkanum.

Sigurður vill ekki meina að það eigi eftir að leysa einhver ákveðin erfið mál, heldur komi þetta allt í einu. „Við erum í raun og veru með allt undir í einu og þegar við ljúkum því er allt búið. Þannig að þetta gengur vel.“

Hann segir að flokkarnir hafi aðeins skoðað skiptingu ráðherrastóla þó að það hafi ekki verið rætt formlega. Fyrst og fremst hafi vinnan snúið að málefnasamningi. „Vegna þess að kosningar eru að hausti þarf að ljúka fjárlögum og það hefur spilað inn í og tekið tíma okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert