Aldís fer ekki fram í Reykjavík

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri i Hveragerði.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri i Hveragerði. mbl.is/Sigurður Bogi

„Nei, ég held ekki. Ég er bæjarstjóri hér í Hveragerði og líkar það ágætlega og hef hug á því að fá að klára þau stóru verkefni sem hér eru fram undan og ætla að einbeita mér að því,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, spurð hvort hún sé að íhuga að bjóða sig fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ásdís Halla Bragadóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ, sem sjálf var um tíma orðuð við framboð, skoraði á Aldísi á Facebook í gær að bjóða sig fram í Reykjavík.

„Ég sá þessa færslu [hjá Ásdísi Höllu] og fannst hún nú aðallega svolítið smellin,“ segir Aldís. „En ég er ekkert að hugsa um að fara til Reykjavíkur. Mér finnst nú í rauninni að Reykvíkingar ættu aðeins að horfa í sinn eigin túngarð og athuga hvort þeir geti ekki fundið einhverja frambærilega. Svo eru þegar komnir fram frambærilegir aðilar.“

Aldís segist því stefna á það nú, að öllu óbreyttu, að bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningunum í Hveragerði í vor. Hún er nú að ljúka þar sínu þriðja kjörtímabili. Á fundi Sjálfstæðisfélagsins í bænum í síðustu viku var ákveðið að fara þá leið að stilla upp lista. 

Mikil uppbygging fram undan

Aldís segir að þau verkefni sem nú blasi við í sveitarfélaginu tengist ennfrekari uppbyggingu í bænum. „Ætli það séu ekki um 200 íbúðir á teikniborðinu í augnablikinu,“ tekur Aldís sem dæmi. „Þróunin er sú að það er orðin svo mikil sókn í þau sveitarfélög sem eru í kransinum í kringum Reykjavík og margt sem þarf að huga að þegar að kemur að slíkri uppbyggingu.“

Leiðatoga­próf­kjör Sjálf­stæðis­flokks­ins í Reykja­vík fer fram 27. janú­ar og rennur framboðsfrestur út klukkan 16 á morgun, miðvikudag. Tvö hafa lýst yfir fram­boði í leiðtoga­kjör­inu, borg­ar­full­trú­arn­ir Áslaug Friðriks­dótt­ir og Kjart­an Magnús­son.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert