Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði kosningabandalag stjórnarflokkanna þriggja, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, vera óopinbert leyndarmál kosninganna, í fyrstu kappræðum Ríkissjónvarpsins í kvöld. Formenn flokkanna tóku fyrir þessa ásökun en útiloka þó ekki samstarf.
„Það er alls ekki rétt, og ekkert verið rætt af neinni alvöru á nokkrum tímapunkti,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins aðspurður. Bætti hann hins vegar við að honum þætti það óeðlilegt að ríkisstjórnin myndi ekki láta reyna á áframhaldandi samstarf að því gefnu að hún haldi meirihluta og njóti stuðnings þjóðarinnar.
Katrín Jakobsdóttir tók undir og benti jafnframt á að þetta sé fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin sem klárar heilt kjörtímabil. Sagði hún samstarfið hafa gengið mjög vel og sagðist telja þjóðina ánægða með starf þeirra.
„Allt þetta kjörtímabil hefur [ríkisstjórnin] notið mikils stuðnings, langt umfram stuðningi við flokkana. Það segir mér að við höfum verið að gera eitthvað rétt,“ segir Katrín.
Spurð hvort þessi ríkisstjórn væri hennar fyrsti kostur svaraði forsætisráðherra því að eðlilegt væri að flokkarnir tali saman hljóti þeir meirihluta. Katrín ítrekaði þó að málefni flokksins muni vera í fyrirrúmi þegar kemur að stjórnarsamstarfi.
Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, kvaðst ánægður með samstarfið og sagði flokkana sammála í mörgum málum.
„Ég hef sagt þetta nokkrum sinnum við ykkur fjölmiðlamenn á liðnum mánuðum, því það er langt síðan þið byrjuðuð að spurja, að ef að ríkisstjórnin heldur velli væri það eitthvað skrítið ef að við myndum ekki hefja samtalið þar, en við göngum óbundin til kosninga.“