„Verði þetta niðurstaða kosninganna á laugardaginn tel ég einsýnt að Vinstri græn verði utan ríkisstjórnar.“
Þetta sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, um niðurstöður nýs þjóðarpúls Gallup.
Skrifaði hún þetta í stuttri færslu á Facebook fyrr í kvöld, en hefur síðan fjarlægt hana.
Bjarkey var ómyrk í máli eins og sést á skjáskotinu hér að neðan:
„Skilaboðin eru skýr, fylgið fer úr 17% í 10% og því ljóst að vilji er til þess að aðrir taki við keflinu.“
Ríkisstjórnarflokkarnir missa meirihluta á þingi miðað við niðurstöðurnar. Fengju þeir aðeins 30 þingmenn samanlagt.
Þar af nær helmingast þingsætafjöldi Vinstri grænna, sem náðu ellefu þingmönnum í síðustu kosningum en fengju sex miðað við þessa könnun.
Tveir þingmenn gengu að vísu úr flokknum á yfirstandandi kjörtímabili og er flokkurinn því með níu þingmenn í dag.