Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum, segir að val borgarbúa sé einfalt, þeir geti valið milli umbreytingar eða sömu, árangurslausu stefnu og borgarstjóri hafi oftsinnis lofað undanfarna áratugi.
Sjálfstæðisflokkurinn sé eini flokkurinn í Reykjavík sem boði raunverulegar breytingar.
Þetta kemur fram í oddvitaviðtali við Hildi í Dagmálum Morgunblaðsins, sem birt er í opnu streymi í dag, en útdrátt úr því er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Hildur varar við að atkvæði greitt öðrum flokkum sé ávísun á meira af hinu sama.
„[Fólk] getur kosið þessa meirihlutaflokka sem allir eru í villu og tálsýn um að allt hafi gengið hér æðislega, sem við öll finnum í okkar daglega lífi að er ekki rétt. Eða það getur kosið flokk eins og Framsókn, sem hefur sagt opinberlega að þau séu reiðubúin að vinna til vinstri, að þau séu reiðubúin að ganga inn í sama hlutverk og Viðreisn eftir síðustu kosningar, að reisa við fallinn meirihluta.“
Í viðtalinu, sem er tæplega stundar langt, er farið yfir helstu stefnumál sjálfstæðismanna og ágreiningsefni í borgarmálum.
Til stóð að taka og birta sams konar viðtal við Dag B. Eggertsson borgarstjóra, en þegar til átti að taka kvaðst hann ekki sjá sér það fært vegna anna.