Loftslagsbreytingar gætu minnkað hagkerfi heimsins um fimmtung, verði ekki gripið í taumana, að því er segir í skýrslu bresks hagfræðings, sir Nicholas Sterns, er birt er í dag. Stern er fyrrverandi yfirhagfræðingur Alþjóðabankans. Hann segir í skýrslunni að lykillinn að lausn vandans sé að fá þau lönd sem mest losa af mengandi efnum út í andrúmsloftið til að draga úr losuninni.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins. Stern segir að löndin sem um ræðir séu m.a. Bandaríkin og Kína. Leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda gætu verið skattlagning, kolefniskvótar og opinber stjórnun á losuninni.
Stern segir að verði gripið í taumana nú þegar verði kostnaðurinn mun minni en hann verði síðar meir, sé ekkert að gert. Aðgerðir nú gætu dregið úr heimsframleiðslu um eitt prósent, eða mun minna en þau 20% sem loftslagsbreytingar geti kostað er frá líður.