Bandarískir læknar í Pittsburgh segja að hægt sé að stemma stigu við útbreiðslu bakteríunnar sem veldur MRSA með því að athuga hvort fólk sé smitað af henni áður en það er lagt inn á sjúkrahús og halda þeim sem eru smitaðir í sóttkví. Bakterían er svokallaður klasakokkur sem valdið getur bólgu og ígerðum í húð og slímhimnu og jafnvel lungnabólgu. Hún er ónæm fyrir sýklalyfjum. Læknarnir hafa reynt þetta og segja það gefa góða raun.
MRSA getur dregið fólk til dauða og breiðist oftast út á sjúkrahúsum og elliheimilum. Með því að taka sýni úr nefi við innritun á sjúkrahús má greina hvort viðkomandi er með MRSA. Þeir yrðu þá í sóttkví og hjúkrunarfólk og læknar myndu vera í gúmmíhönskum þegar þeir aðstoðuðu þá, þvæðu vel á sér hendur og sótthreinsuðu áhöld.
Með slíkum aðferðum hefur tilfellum smits fækkað um 70% á sjúkrastofnuninni Pittsburgh VA. Fólk getur borið bakteríuna með sér án þess að veikjast. Talið er að um 90.000 manns deyji á ári hverju í Bandaríkjunum vegna sýkinga í kjölfar smits á sjúkrahúsi. Um 17.000 þeirra eru vegna MRSA.