Var Beethoven ráðinn bani?

Beethoven.
Beethoven.

Meinafræðingur í Vín heldur því fram að læknir Beethovens hafi ráðið tónskáldinu bana með því að setja óvart of stóran skammt af blýi út í lyf sem Beethoven tók. Aðrir vísindamenn efast um þetta, en það er þó óumdeild staðreynd að Beethoven hafði verið alvarlega veikur í nokkur ár áður en hann lést 1827.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að Beethoven þjáðist af blýeitrun. Fyrst kom í ljós hættulega mikið magn af blýi í hári af honum, og fyrir tveimur árum fannst það í beinum hans. Þessar niðurstöður höfðu rennt stoðum undir þá tilgátu að blýeitrun hafi hrjáð Beethoven og að endingu leitt hann til dauða er hann var 57 ára.

Meinafræðingurinn í Vín, Christian Reiter, segir ítarlegar rannsóknir sínar undanfarna mánuði á hárum af Beethoven hafa leitt enn meira í ljós. Niðurstöður hans voru birtar í síðustu viku í Beethoven Journal, sem gefið er út í Kaliforníu, og sýna að síðustu mánuðina sem Beethoven lifði jókst blýþétting í líkama hans í hvert sinn sem hann fór til læknis síns, Andreas Wawruch, vegna vökva í kviðarholi.

Þessir stóru skammtar reyndu mjög á lifur Beethovens, sem var veik fyrir, og urðu honum loks að aldurtila, sagði Reiter í viðtali við Associated Press. Hann tekur fram, að Wawruch hafi ekki getað vitað að Beethoven var með veiklaða lifur. Það vissi enginn á þeim tíma.

Það var ekki fyrr en lík Beethovens var krufið í Vín 26. mars 1827 að læknar komust að því að hann hafði verið með skorpulifur og bjúg í kviðarholinu.

Reiter er yfirmaður meinafræðideildar Læknaháskólans í Vín.

Hann segir að á þessum tíma hafi eituráhrif blýs verið þekkt, en skammturinn sem læknir Beethovens hafi notað hafi ekki verið það stórir að þeir hefðu verið hættulegir fyrir heilbrigðan mann. Læknirinn hafi ekki vitað að lifur Beethovens var veikluð, og því fór svo, að blýskammtarnir drápu lifrina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert