Íslenskar konur fæða þyngstu börn í heimi. Síðustu 10 árin voru börn sem vógu 5 kg og meira við fæðingu 343. Þyngsta barnið var tæp 6,4 kg. Hlutfall of þungra og of feitra mæðra hefur aukist verulega og eykur það áhættu hjá bæði móður og barni, að sögn Reynis Tómasar Geirssonar, prófessors og yfirlæknis á kvennasviði Landspítalans. Börnin geta fengið langtímaáverka við fæðinguna og þurft að glíma við offitu og sykursýki síðar á ævinni.
Norska fréttastofan NTB greinir frá því að norskar konur hafi um árabil fætt þyngstu börn í heimi en jafnframt að íslenskar konur hafi vinninginn. Fréttastofan hefur það eftir Lorentz Irgens, prófessor við Norsku fæðingarskráninguna, að svo virðist sem viðvaranir í Noregi vegna vaxandi fæðingarþyngdar undanfarna áratugi hafi borið árangur. Í fyrra hafi fæðst um 1900 börn sem voru yfir 4,5 kg við fæðingu, það er að segja á mörkum ofþyngdar. Fyrir sex árum hafi fæðst 2500 til 3000 börn sem voru 4,5 kg eða meira.
Jafnframt hefur fréttastofan það eftir norskri ljósmóður, Nönnu Voldner, að séu börn of þung við fæðingu eigi þau á hættu að verða of þung og fá sykursýki síðar á ævinni.
Nánar í Blaðinu í dag