Meiri líkur eru á að nýfæddir drengir deyi en nýfæddar stúlkur, og hafa framfarir í læknisfræði aukið þetta kynjabil, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar er birtar voru í gær. Könnun á tíðni ungbarnadauða í þróuðum ríkjum leiddi í ljós að 24% meiri líkur eru á að drengir deyi en stúlkur.
Samsvarandi munur á kynjunum var 31% árið 1970, en núna er hann tvöfalt meiri en hann var áður en bóluefni og aðgerðir í lýðheilsumálum, eins og t.d. aukið hreinlæti, fóru að draga verulega úr tíðni ungbarnadauða.
Á árunum 1751-1870 var kynjamunur á ungbarnadauða um tíu til fimmtán prósent.
Rannsóknin er birt í Proceedings of the National Academy of Sciences.
Ástæðurnar fyrir þessum kynjamun eins og hann er núna eru nokkrar. Til dæmis hafa stúlkur sterkara ónæmiskerfi en strákar og 60% meiri líkur eru á að strákar fæðist fyrir tímann og eigi við að etja kvilla í öndunarfærum.
Ennfremur er meiri hætta á erfiðleikum í fæðingju drengja vegna þess að þeir fæðast yfirleitt með stærri líkama og höfuð en stúlkur.