Hugbúnaðarrisinn Microsoft hefur verðlaunað Vodafone á Íslandi fyrir nýsköpun og hugvitssama nýtingu Microsoft-lausna sem skilað hafa góðum árangri við rekstur fyrirtækisins. Verðlaunin hlýtur Vodafone fyrir þróun á CRM kerfinu, en kerfið var hannað til að sækja mikilvægar upplýsingar um viðskiptavini úr 18 mismunandi tölvukerfum og birta þjónustufulltrúum á einum stað.
Það voru íslensku upplýsingatæknifyrirtækin PerSight, Applicon og Kögun sem sáu um innleiðingu lausnanna.
Viðurkenningin er hluti af því sem Microsoft kallar Customer Excellence Award, en það eru árleg verðlaun sem veitt eru í 12 flokkum. Verðlaunin verða afhent á Microsoft ráðstefnu í Kaupmannahöfn dagana 19. og 20. nóvember.