Óekta skartgripir fullir af blýi

Full ástæða er til þess að vera á varðbergi gagnvart glingri. Ný rannsókn á vegum Miljøstyrelsen (Umhverfistjórnar) í Danmörku leiðir í ljós að í fjórða hverjum óekta skartgrip, þ.e. gripum sem ekki eru í gulli eða silfri, finnst óleyfilega mikið magn af blýi. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken. 

Rannsókn Miljøstyrelsen náði til 342 skartgripa. Í 84 tilfellum reyndist blýmagn of hátt og hefur viðkomandi verslunareigendum verið bannað að selja umrædda skartgripi. Þetta er önnur rannsóknin á þessu ári, en í fyrri rannsókninni reyndust 50% alls glingurs innihalda of mikið blý. Vörurnar eru aðallega til sölu í fataverslunum, stórmörkuðum og snyrtivörubúðum. 

„Glingur getur innihaldið þungmálma. Og jafnvel þó magn þungmálma sé undir leyfilegum mörkum þá getur það magn sem fólk verður fyrir yfir lengra tímabil valdið skaða,“ segir Rikke Bille, rannsóknarstjóri hjá Informationscenter for Miljø og Sundhed (Upplýsingamiðstöð umhverfis og heilsu). Hún segir vissulega gott að verslunareigendur hafi tekið sig á og minnkað magn af glingri með blýi í búðum sínum, en telur engu að síður að almennt séu menn sér ekki nógu meðvitaðir um hættuna af blýmengun. 

„Við hvetjum fólk eindregið til þess að kaupa ekki óekta skartgripi handa börnum sínum. Það getur verið mjög varasamt fyrir börn að sleikja eða sjúga þessa skartgripi,“  segir Rikke Bille og tekur fram að vilji fólk kaupa þessa tegund skartgripa þá eigi það að vera meðvitað um að ganga ekki stöðugt með gripina og forðast það að segja hlutina upp í sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka