Virtur vísindamaður hjá Sameinuðu þjóðunum segir að alþjóðasamfélagið verði að vera undir það búið að grípa til aðgerða svo koma megi í veg fyrir að smástirni rekist á jörðina með hörmulegum afleiðingum.
Prófessorinn Richard Crowther lét ummælin falla á sama tíma og geimsérfræðingar kalla eftir samhæfðum viðbrögðum heimsbyggðarinnar, sem yrði undir stjórn vísindamanna, að koma í veg fyrir árekstur.
Samtök geimkönnuða (ASE) segja alþjóðasamfélagið verði að samþykkja það ef leggja á af stað í sérstaka geimleiðangra til að stöðva smástirni sem líklegt þykir að muni rekast á jörðina.
SÞ mun koma saman í febrúar nk. til að ræða málið, að því er segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Fram kemur í skýrslu ASE að hópur vísindamanna og fyrrum geimfara hafi bent á söguleg gögn til að leggja áherslu á það hversu hættuleg smástirni geti verið. T.d. er talið er að árekstur smástirnis á jörðina fyrir 65 milljónum ára hafi þurrkað risaeðlurnar út.
Þá segja þeir að árið 1908 hafi smástirni, sem var um 60 metrar að þvermáli, fallið til jarðar í
afskekktu og nær óbyggðu héraði, Tunguska, í Norður-Rússlandi. Varð þá
sprenging sem talin er hafa verið 600 sinnum öflugri en
kjarnorkusprengjan sem eyddi japönsku borginni Hiroshima árið 1945. Eldur á um 2000 ferkílómetra svæði, sem er álíka stórt og New York, kviknaði í kjölfarið.
Þeir segja að næsti alvarlegi atburður gæti gerst innan 20 ára. Smástirnið Apophis mun brátt fara fram hjá jörðinni og að sögn sérfræðinga eru líkurnar á því að það rekist á jörðina 1 á móti 45.000.