Indverskir dómstólar hafa verið hvattir til þess að banna tölvuforritið Google Earth þar sem talið er að forritið hafi verið notað til að skipuleggja hryðjuverkaárásirnar í Mumbai í nóvember. Forritið er ókeypis og veitir aðgang að lítarlegum loftmyndum flestra borga heims.
Lögfræðingurinn Amit Karkhanis lagði inn beiðni til dómstóla um að myndir af viðkvæmum stöðum á Indlandi verði ruglaðar í forritinu þar til úrskurður hafi fengist í málinu, þetta kemur fram á fréttavef The Times.
Talið er að byssumennirnir sem urðu yfir 170 manns að bana í Mumbai og fólkið sem þjálfaði þá hafi nýtt sér hátækni við árásirnar m.a. notað háþróuð GPS tæki til að sigla í höfn í Mumbai. Þá hafi þeir hafi átt samskipti um gervihnött, notað farsíma með mismunandi SIM kortum auk þess að hafa nýtt sér internetið með aðstoð Blackberry síma.
Að sögn lögreglunnar í Mumbai segir eini árásarmaðurinn sem handtekinn var eftir árásirnar að hryðjuverkamennirnir hafi nýtt sér gervihnattamyndir til að kynna sér gatnakerfið í Mumbai.
Árið 2005 féllst Google fyrirtækið á að rugla myndir af þaki Hvíta hússins í Washington þegar myndir af því voru uppfærðar. Þá hafa yfirvöld í Suður-Kóreu og Taílandi einnig lagt fram kvartanir eftir að herflugvellir voru sýndir í forritinu.