Dregur úr virkni sólar

mbl.is/Brynjar Gauti

Á sama tíma og hitastig jarðarinnar fer hækkandi benda rannsóknir vísindamanna til þess að virkni sólarinnar sé nú minni en hún hefur verið öldum saman. Ráða þeir þetta m.a. af því að lengra er nú á milli sprengjutímabila á sólinni en áður. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Vísindamenn segja þróunina ekki fylgja þekktum lögmálum og eru ekki á einu máli um ástæður þess.

Á síðustu öld hefur sólin farið reglulega í gegn um virk tímabil með miklum sprengingum. Þess á milli hefur hún lagst í nokkur konar dvala í ellefu ár í senn. Nú eru hins vegar tvö ár frá því síðasta virka tímabil „átti" að hefjast. 

Í stað þess að virknin hafi aukist hefur sólin hins vegar haldið áfram að kólna og mælast hiti hennar og virkni hennar nú lægri en nokkru sinni fyrr frá því mælingar hófust.

Þannig er styrkur sólvinda nú minni en hann hefur mælst í fimmtíu ár og geislavirkni frá sólinni sú minnsta sem mælst hefur í 55 ár. Þá mælast segulsvæði sólarinnar nú veikari en þau hafa gert í hundrað ár.

Louise Hara, prófessor við University College í London, segir óljóst hvenær virkni sólarinnar aukist að nýju. „Í sumum vísindagreinum er því haldið fram að eðlileg sólarvirkni muni brátt hefjast að nýju. Aðrir telja að við séum á leið inn í nýtt tímabil með minni virkni. Eins og stendur fer fram mikil vísindaleg umræða um þetta,” segir hún.

Þá segir hún enga skýringu liggja fyrir á þessari breytingu á virkni sólarinnar en að sýnt hafi verið fram á að slíkt hafi gerst áður og síðan gengið til baka. Mun síðast hafa dregið mjög úr virkni sólarinnar á sautjándu öld en virkni hennar síðan aukist á ný um 1800.

Mike Lockwood prófessor við háskólann í Southampton er einn þeirra  vísindamanna sem sýnt hafa fram á minnkandi virkni sólarinnar frá árinu 1985. Hann segir litlar líkur á að þetta vegi upp á móti hlýnun andrúmslofts jarðar vegna áhrifa gróðurhúsalofttegunda.

„Ég vildi óska að sólin kæmi okkur til bjargar en því miður benda fyrirliggjandi gögn ekki til þess,” segir hann. „Hefði minni virkni sólarinnar kælandi áhrif á jörðina þá hefðum við þegar orðið vör við það.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert