Búist við að nýr tölvuleikur slái öll met

Skjámynd úr leiknum Call of Duty: Modern Warfare 2.
Skjámynd úr leiknum Call of Duty: Modern Warfare 2. AP

Tölvuleikjaunnendur hafa beðið í mikilli eftirvæntingu eftir leiknum Call of Duty: Modern Warfare 2, en búist er við því að leikurinn muni verða sá söluhæsti í sögunni.

Mörg hundruð manns söfnuðust saman í verslunum víða um heim þegar leikurinn kom út, en hann var settur í sölu á miðnætti að íslenskum tíma. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

HMV-verslunarkeðjan í Bretlandi býst t.a.m. við því að selja um eina milljón eintaka í fyrstu vikunni. Það er 20% aukning samanborið við Grand Theft Auto 4, sem nú er söluhæsti leikurinn.

Þá segja forsvarsmenn vefverslunarinnar Amazon að sölutekjur vegna eintaka sem hafi verið pöntuð fyrirfram séu 50% hærri heldur en tekjurnar af GTA4.

Búist er við því að leikurinn muni seljast í yfir 10 milljónum eintaka á heimsvísu fyrir jól. Leikurinn kemur úr smiðju tölvuleikjaframleiðandans Activision.

Sérfróðir telja að allt að fimm milljón eintök af leiknum muni seljast á fyrsta sólarhringnum.

Þetta er sjötti leikurinn í Call of Duty leikjaröðinni. Í leiknum stýra leikmenn sérsveit sem berst við rússneska hryðjuverkamenn, sem eru öfgafullir þjóðernissinnar í ofanálag. Sérsveitin ferðast til Rússlands, Afganistans, Kasakstan, Brasilíu og út í geim til að berjast við hryðjuverkamennina.

Leikurinn hefur hins vegar verið harðlega gagnrýndur fyrir ofbeldi. Sérstaklega vegna þess að á einum stað í leiknum getur leikmaður tekið þátt í fjöldamorði á saklausu fólki á flugvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert