Samkvæmt nýjustu spá Alþjóðheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) stefnir allt í að krabbamein verði dánarmein 13,3 milljón manna á ári árið 2030. Til samanburðar mun geta þess að árið 2008 létust 7,6 milljónir manna úr krabbameini.
Nýjar rannsóknir á tíðni krabbameina benda til þess að allt að 21,3 milljónir manna greinist með krabbamein árið 2030 og þar af láti 13,3 milljónir manna í minni pokann fyrir sjúkdómnum.
Freddie Bray, vísindamaður hjá Alþjóðlegu krabbameinsrannsóknarmiðstöðinni, stjórnaði fyrrgreindri rannsókn sem náði til 27 mismunandi tegunda krabbameina. Hann segir að árið 2008 hafi 56% þeirra 12,7 manna sem greindust með ný krabbameinstilfelli og 63% þeirra 7,6 manna sem létust úr krabbameini búið í þróunarríkjunum.
Tölur sýna að það ár var lungnakrabbamein algengast krabbameinið, en þar á eftir kom brjóstakrabbamein og ristilkrabbamein. Flest krabbameinstilfelli greindust í fjölmennustu ríkjum heims, þ.e. Kína, Indlandi og Bandaríkjunum. Dánartíðnin var hæst í Norður-Ameríku, vesturhluta Evrópu og Ástralíu.
Að sögn Bray skýrist há dánartíðni í fyrrgreindum löndum út frá neyslumynstri almennings í ríkari löndum heims eftir síðari heimsstyrjöld þar sem reykingar hafi t.d. verið mjög algengar. Á síðustu árum hafi reykingar aukist til muna í þróunarríkjunum og það skýri hækkandi tíðni lungnakrabbameins á heimsvísu.