Uppgötvarnir í ljóstækni

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Ómar

Vísindamenn á eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands segjast hafa náð mikilvægum áfanga í rannsóknum í örljóstækni. Niðurstöður rannsóknahópsins, sem Kristján Leósson vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskólans stýrði, birtust í hinu virta tímariti Nature Photonics í síðustu viku.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands.

Tilraunir vísindamanna HÍ hafa snúist um að yfirvinna ljóstap sem hlýst af því að þjappa ljósinu meira saman en gert er í hefðbundinni ljóstækni. „Það hefur lengi verið vandamál fyrir hagnýtingu á þessu sviði að afl ljósmerkis tapast mjög hratt þegar því er þjappað mikið saman. Fjöldi rannsóknahópa um allan heim hefur undanfarin tvö til þrjú ár keppst við að sýna fram á mögulegt sé að vega upp á móti þessu tapi með því að magna ljósmerkið upp, en ekki hefur tekist að sýna fram á það með óyggjandi hætti fyrr en nú,“ segir Kristján Leósson. Hann bætir við að möguleikarnir í að hanna efni með nýstárlega ljóseiginleika séu gríðarlega miklir. 

Í umræddri grein í Nature Photonics, sýndu vísindamenn Háskóla Íslands fram á ljósmögnun í sérstakri tegund bylgjuleiðara þar sem ljósið er bundið í svokölluðum rafgasskautunareindum. Rafgasskautunareindir eru samþætt ástand ljóss og rafeinda á málmyfirborði og hafa því bæði eiginleika ljóseinda og efniseinda.

Örljóstækni er tiltölulega nýtt rannsóknasvið sem getur leitt til mikilvægra nýjunga á fjölmörgum sviðum, t.d. gert skjái og sjónvörp ódýrari, léttari og umhverfisvænni, margfaldað gagnaflutningshraða í tölvum og  aukið nýtingu sólarorku í sólarsellum. 

Tilraunir hafa einnig verið gerðar með notkun slíkrar tækni í lækningaskyni. Þá er örsmáum málmögnum komið fyrir í líkamanum til að eyða krabbameinsæxlum með innrauðu ljósi sem vinnur á æxlinu en er skaðlaust fyrir heilbrigða vefi líkamans.  Örljóstæknin gæti jafnvel leitt af sér aðferðir til að gera hluti ósýnilega.

Kristján Leósson
Kristján Leósson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert