Ungar konur þjást ekki af joðskorti

Joðskortur getur valdið greindarskerðingu hjá barni ef móðirin þjáist af …
Joðskortur getur valdið greindarskerðingu hjá barni ef móðirin þjáist af joðskorti á meðgöngu. mbl.is/Kristinn

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að joðhagur unglingsstúlkna á Íslandi sé innan viðmiðunarmarka sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) setur. Mjólkurvörur voru helsta uppspretta joðs í fæði unglinganna en fiskneysla var lítil hjá þessum aldurshópi. Joðskortur getur valdið greindarskerðingu hjá barni ef móðirin þjáist af joðskorti á meðgöngu.

Segir í fréttatilkynningu að Ísland hefur löngum verið þekkt fyrir góðan joðhag vegna umtalsverðrar fisk- og mjólkurneyslu en fiskur og mjólkurvörur eru helstu uppsprettur joðs í fæði. Undanfarna áratugi dregið úr fisk- og mjólkurneyslu hér á landi, sérstaklega meðal ungs fólks.

„Joðskortur er landlægur víða í nágrannaríkjunum og vaknaði grunur um að ákveðnir hópar í samfélaginu gætu verið að sigla inn í joðskort. Alvarlegustu afleiðingar joðskorts koma fram á meðgöngu, þar sem jafnvel vægur skortur getur valdið greindarskerðingu hjá barninu. Því er mikilvægt er að leiðrétta joðskort áður en kona verður þunguð," segir ennfremur í tilkynningu frá heilbrigðissviði Háskóla Íslands.

Nýlega voru birtar niðurstöður rannsóknar á joðhag unglingasstúlkna á Íslandi í tímaritinu European Journal of Clinical Nutrition. Rannsóknin var gerð á Rannsóknastofu í næringarfræði undir stjórn Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, í samstarfi við Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, Landspítala og National Institute of Nutrition and Seafood Research í Noregi. Rannsóknasjóður Rannís styrkti rannsóknina.

Hvetja til aukinnar fiskneyslu

Niðurstöðurnar benda til þess að joðhagur unglingsstúlkna á Íslandi sé innan viðmiðunarmarka sem Alþjóðaheilbrigsismálastofnunin (WHO) setur. Mjólkurvörur voru helsta uppspretta joðs í fæði unglinganna og hafði einnig mest áhrif á joðhag þátttakenda. Joðshagur þeirra stúlkna sem minnst neyttu af mjólkurvörum var verri en þeirra sem neyttu mest, en þó innan viðmiðunarmarka WHO.

Fiskneysla var mjög lítil meðal þátttakenda og hafði ekki bein áhrif á joðhag stúlknanna. Í ljósi margþættra jákvæðra áhrifa fiskneyslu á heilsufar er þó ástæða til þess að hvetja til meiri fiskneyslu meðal unglingsstúlkna sem og annarra hópa.

Mælt gegn joðbættu salti

„Í gegnum tíðina hefur fiskur ásamt mjólkurvörum verið ein helsta uppspretta joðs í fæði Íslendinga. Þeim hópum í samfélaginu sem hvorki neyta mjólkurvara né fisks, eða nota þessar fæðutegundir í mjög litlum mæli, er bent á að ræða við næringarfræðing eða næringarráðgjafa um það hvort líkur séu á því að fæðið fullnægi ekki joðþörf líkamans.

Víða erlendis er salt joðbætt en joðbætt salt er almennt ekki notað hérlendis. Í ljósi ofangreindra niðurstaðna er mælt gegn því að þeir sem neyti reglulega fisks og/eða mjólkurvara noti joðbætt salt þar sem of mikil joðneysla (nokkuð umfram ráðlagðan dagsskammt) getur verið skaðleg," segir í tilkynningu.

Fiskneysla var mjög lítil meðal þátttakenda
Fiskneysla var mjög lítil meðal þátttakenda mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert