Fréttaskýring: Ár tækniþróunar

Á hverju ári eru kynntar fjölmargar tækninýjungar sem oftar en ekki eiga að gjörbreyta lífi þeirra sem kaupa þær. Sumt hittir beint í mark en annað fuðrar upp og hverfur. Það nægir að nefna net- og farsímabyltinguna sem dæmi um „nýlega“ tækni sem hefur valdið straumhvörfum í heiminum. Þá er nánast óhætt að fullyrða að sérhvert mannsbarn þekki stórfyrirtækin Google og Facebook.

Consumer Electronic Show (CES) hófst í Las Vegas í Bandaríkjunum í dag og CeBit tæknisýningin fer fram í Hannover í Þýskalandi í mars. Sýningarnar eru haldnar árlega og þar er ávallt mikið um dýrðir, en einnig mikið um auglýsingamennsku. Fyrir íslenska tækniáhugamenn má nefna sýninguna Netið Expo, sem fer fram hér á landi í mars nk.

En hvað mun gerast á árinu 2011?

„Ég held á þessu ári munum við sjá mikla þróun frekar en nýja tækni,“ segir Adólf Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasölu hjá Electronic Arts í Sviss. Í fyrra hafi gríðarlega mikið af nýjum tæknitólum litið dagsins ljós en í ár muni tæknin þróast enn frekar. Stórfyrirtæki á borð við Apple, Microsoft, Google og Sony verði enn á meðal helstu framleiðenda og þá sé ólíklegt að nokkur muni ógna veldi Facebook á næstunni.

Adólf bendir á að á meðal helstu tækninýjunga síðasta árs hafi verið iPad spjaldtölvan frá Apple og Google TV, sem Adólf segir að muni líklega verða innbyggð í sjónvarpstæki.

Samhliða því að framleiða ný tæki séu stóru fyrirtækin að þróa eigin gagnalausnir, og smáforrit fyrir snjallsíma og spjaldtölvur, t.d. tölvuleiki.

„Það er af nógu að taka,“ segir Adólf.

„Ég þykist vera þess viss að við munum sjá nokkrar tækninýjungar sem verða byggðar á nálgunarstjórnun,“ segir hann og vísar til tækni sem sást í kvikmyndinni Minority Report.

„Snerting á vel við þegar stýra á smátækjum. Hún á hins vegar illa við þegar snertiflöturinn stækkar, ekki síst vegna þess hversu notandinn þreytist fljótt í höndunum.  Nálgunarstýring eða stjórnun verður svarið við þessu, þar sem þú hreinlega flytur glugga með handarbendingum, skiptir um lög í iTunes með fingrahreyfingum o.s.frv. Þetta verður ekki erfitt að innleiða þar sem myndavélar eru þegar innbyggðar í flestar borð- og fartölvur í dag,“ segir hann.

Sjá ítarefni neðar á síðunni.

Adólf Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasölu hjá Electronic Arts í Sviss.
Adólf Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasölu hjá Electronic Arts í Sviss.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert