2010 heitasta ár sögunnar

Ís hefur aldrei mælst minni á norðurskautinu en í fyrra.
Ís hefur aldrei mælst minni á norðurskautinu en í fyrra. Reuters

Árið 2010 var heitasta ár frá því mælingar hófust samkvæmt Veðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna. Þykir þetta staðfesta að meiriháttar hlýnun jarðar sé í gangi og það hafi í för með sér mikinn óstöðugleika í veðurfari. Var árið í fyrra það heitasta sem mælst hefur ásamt árunum 1998 og 2005 sagði í tilkynningu stofnunarinnar.

„Tölurnar fyrir 2010 staðfesta að jörðin er að hlýna til lengri tíma litið. Tíu heitustu ár sem mælingar ná til eru öll eftir 1998,“ sagði Micheal Jarraud, aðalritari stofnunarinnar.

Meðalhitinn árið 2010 var 0,53 gráðum á selsíus yfir meðaltali áranna 1961 til 1990 sem notað er til viðmiðunar í lofslagsmælingum en tölurnar byggja á víðtækum mælingum bandarískra og breskra vísindamanna. Er það 0,01 gráðu meira en árið 2005 og 0,02 gráðum meira en 1998 en það er þó innan vikmarka sem gerir muninn á milli áranna tölfræðilega ómarktækan.

Sem afleiðing af þessari hlýnun hefur hafís á norðurskautinu aldrei mælst minni en í desember á síðasta ári en hann nær nú yfir 12 milljónir ferkílómetra að meðaltali yfir mánuðinn en það er 1,35 milljón ferkílómetrum minna en meðaltalið fyrir sama mánuð milli áranna 1979 og 2000. 

„Það eru engar góðar fréttir að hafa hvað þetta varðar. Norðurskautsísinn heldur áfram að vera mjög lítill,“ sagði Jarraud blaðamönnum.

Mesta hitaaukningin hefur verið í Afríku, hluta Asíu og á hluta Norðurskautsins. Reyndist árið í fyrra sérstaklega heitt í stórum hluta Afríku, suður- og vesturhluta Asíu, á Grænlandi og þeim hluta Kanada sem tilheyrir norðurheimsskautinu. Þá hafa miklar sveiflur orðið annars staðar.

Í Norður-Evrópu og Ástralíu var desember mun kaldari en að meðaltali og í stórum hluta Vestur-Evrópu og í Skandinavíu var einnig óvenjukalt. Þá áttu ýmis óvenjuleg veðurfyrirbrigði sér stað á árinu eins og hitabylgjan í Rússlandi í sumar og monsoon-flóðin í Pakistan.

Stofnunin segir að þessar tölur einar og sér staðfesti ekki að orsökin sé gróðurhúsalofttegundir sem mannkynið framleiðir en hins vegar er talið að aðrar rannsóknir á útblæstri slíkra lofttegunda renni stoðum undir þá skýringu.

„Sjálfskipaðir efasemdamenn um hlýnun jarðar gætu enn reynt að halda því fram að hlýnunin hafi hætt árið 1998 en þeir geta ekki útskýrt í burtu þá staðreynd að níu af tíu hlýjustu árum sem mælingar ná til hafi öll verið síðan 2000,“ sagði Bob Ward frá rannsóknarstofnun London School of Economics á veðurfarsbreytingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert