Breskir vísindamenn hvetja nú til þess, að fólk breyti neyslu sinni á sjávarfangi til að koma á jafnvægi í vistkerfi hafsins. Þannig eigi að borða meira af sardínum, ansjósum og síld en draga úr neyslu á þorski, ýsu og túnfiski.
Breska blaðið Guardian fjallar í dag um rannsókn, sem Villy Christensen gerði á vegum háskólans í Breski Kólumbíu í Kanada og segir að sú rannsókn hafi staðfest niðurstöður fyrri rannsókna um að þeir fiskistofnar, sem eru efstir í fæðukeðjunni í sjónum hafi minnkað gríðarlega á síðustu öld. En á sama tíma hafi fiskistofnar neðar í fæðukeðjunni, svo sem sardínur, ansjósur og loðna, meira en tvöfaldast.
„Ef rándýrin eru fjarlægð verður meira af bráðinni," hefur Guardian eftir Christiansen. „Það hefur ekki verið sýnt fram á þetta áður vegna þess að fjöldi einstaklinga hefur ekki verið mældur."
Segir Christainsen, að sóknin í stóra fiskinn, efst í fæðukeðjunni hafi leitt til þess að fiskistofnar, sem eru algengt æti stóra fisksins, þrífist afar vel. Hann hvetur þess vegna neytendur til að draga úr neyslu á hefðbundnum botnfiski en borða þess í stað meira af uppsjávarfiski til að koma jafnvægi á vistkerfið í hafinu að nýju.
Hann bendir á að þessi vöxtur uppsjávarstofna hafi áhrif á allt vistkerfið. Þessi fiskur éti meira af dýrasvifi í sjónum. Það þýðir að plöntusvifið, sem er neðar í fæðukeðjunni, dafni og við það gangi á súrefnið í hafinu. Dæmi um þetta megi sjá í Svartahafi.