Stálu upplýsingum um notendur PlayStation

Japanski raftækjaframleiðandinn Sony sagði í kvöld, að tölvuþrjótar hefðu stolið aðgangsorðum og persónuupplýsingum um notendur, sem notuðu PlayStation Network til að tengjast netinu og sækja tölvuleiki, kvikmyndir og fleira.

PlayStation Network og Qriocity tónlistarvefnum var lokað 20. apríl eftir að brotist var inn á netsvæðin. Patrick Seybold, talsmaður Sony, segir að enn sé verið að rannsaka innbrotið en talið sé að tölvuþrjótarnir hafi komist yfir notendanöfn, aðgangsorð, kennitölur og netföng notenda. 

Þá sé heldur ekki hægt að útiloka, að hakkararnir hafi komist yfir upplýsingar um greiðslukort þótt ekkert bendi enn til þess, að því er kemur fram í tölvupósti, sem notendur PlayStation Network og Qriocity hafa fengið. 

PlayStation Network var hleypt af stokkunum árið 2006 og eru skráðir notendur um 75 milljónir. 

Tölvuþrjótahópurinn Anonymous hafði hótað því, að ráðast á vefsvæði Sony eftir að fyrirtækið höfðaði mál gegn tölvuþrjótum, sem brutu niður varnir gegn því að skipt yrði um stýrikerfi í PS3 leikjatölvum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert