Farfuglar seinka ferðum sínum

Um 75% færri blesgæsir sækja nú til Bretlands en fyrir …
Um 75% færri blesgæsir sækja nú til Bretlands en fyrir áratug síðan.

Gæsir, endur, svanir og aðrir farfuglar sem verja vetrunum í votlendum Norður-Evrópu hafa breytt hegðun sinni eftir því sem loftslag fer hlýnandi, að sögn vísindamanna. Rannsókn í Finnlandi bendir til þess að farfuglar frest ferðum sínum um allt að mánuð, miðað við það sem var fyrir 30 árum síðan.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar um atferli þeirra birtist í vísindaritinu Journal of Ornithology, en BBC segir frá þeim í dag. Finnski prófessorinn Aleksi Lehikoinen við Helsinkiháskóla leiddi rannsóknina sem byggðist á því að bera saman gögn sem spanna þrjá áratugi frá fuglaskoðunarsvæðinu Hanko í suðurhluta Finnlands. Frá 1979 hafa verið gerðar daglegar talningar á svæðinu til að skrásetja hegðun farfugla.

Niðurstöðurnar sýna að 6 af 15 fuglategundum á svæðinu leggja seinna en áður upp í árstíðabundnar ferðir sínar, í sumum tilfellum allt að mánuði seinna en tíðkaðist. Dr. Lehikoinen segir að þetta sýni hve ört votlendisfuglar bregðist við breytingum á loftslagi. „Rannsóknir sýna að hitastig vatnsins hefur hækkað jafnvel hraðar en lofthitinn. Þetta þýðir að það er meira fæði að finna fyrir þessar tegundir á norðlægum slóðum.“

Fram kemur á BBC að Bretar verði varir við þessar breytingar því þar í landi sjáist mun minna en áður af nokkrum þekktum tegundum sem sæki ekki lengur eins langt og áður. Á síðustu 10 árum hafi t.a.m. blesgæsum fækkað um 75% í Bretlandi. Þetta geti haft mikil áhrif á fæðukeðjuna í breskum votlendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert