Tíðir skallar skaða heilann

Það er ekki hollt fyrir heila fótboltamanna að skalla boltann …
Það er ekki hollt fyrir heila fótboltamanna að skalla boltann mikið. Eggert Jóhannesson

Að skalla fótbolta oft og ótt og títt getur leitt til heilaskaða. Læknar hafa fundið sönnun þess segir á vefsíðu BBC. Þrjátíu og tveir áhugaleikmenn voru skoðaðir og kom í ljós að skaðinn á heila þeirra var svipaður og sést hjá sjúklingum með heilahristing.

Talið er að skallar hafi leitt til dauða enska fótboltamannsins Jeff Astle sem lést árið 2002, þá 59 ára, en hann átti við andleg vandamál að stríða eftir margra ára spilamennsku. Hann lést af völdum hrörnunarsjúkdóms í heila sem hafði myndast af völdum þess að skalla þungan leðurfótbolta endurtekið. Þrátt fyrir að boltarnir í dag séu mikið léttari en þeir voru á sjöunda áratugnum, þegar Astle var að spila geta þeir enn gefið vænt högg auk þess sem þeir eru á miklum hraða.

Þeir fótboltamenn sem tóku þátt í rannsókninni og gerðu mikið af því að skalla í leikjum og á æfingum, eða sögðust skalla boltann að minnsta kosti 1000 sinnum á ári, greindust allir með vægan heilaskaða. Þeir komu einnig verr út á prófum sem voru gerð til að kanna vitræna getu eins og minni og viðbragðsflýti. Fimm heilasvæði voru sködduð, framan í heilanum og að aftan á höfuðkúpu þar sem starfsemi eins og athygli og minni á sér stað.

Talið er að skaðinn byggist upp á nokkrum tíma. Að endurteknir skallar geti sett af stað viðbrögð sem geti leitt til ótímabærrar hrörnunar heilafrumna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert