Þríeykið tunglið, Venus og Júpíter

Af Stjörnufræðivefnum

Líklega hafa fjölmargir tekið eftir skæru reikistjörnunum tveim sem prýtt hafa kvöldhimininn í vestri undanfarnar vikur. Í kvöld og annað kvöld heldur sjónarspilið áfram þegar örmjór vaxandi máni heilsar upp á Júpíter og Venus. Þetta eru síðustu forvöð að sjá þríeykið dansa saman á himninum þetta árið.

Á Stjörnufræðivefnum kemur fram að í kvöld verður tunglið aðeins tveimur gráðum fyrir ofan Júpíter.  Þar er að finna leiðbeiningar hvernig best er að sjá þríeykið saman á himni í kvöld.

Mánudagskvöldið 26. mars verður tunglið skammt fyrir ofan Venus en Venus er smám saman að nálgast jörðina og því er birta hennar að aukast. Hámarkinu er náð eftir örfáar vikur þegar hún er örmjó sigð, rétt eins og tunglið þetta kvöld.

Tunglið mun heimsækja Venus í tvígang áður en reikistjarnan setur svartan blett á sólina þann 5. júní næstkomandi (þá verður þverganga, mjög sjaldgæfur stjarnfræðiviðburður).

Samstöður sem þessar eru alltaf óhemju glæsilegar, sér í lagi þegar himinninn er orðinn dimmur og hnettirnir skína skærast, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert