Maður sem var að leita að fornmunum á Gotlandi fann um páskana stóran silfursjóð með um 6.000 silfurpeningum. Talið er að sjóðurinn sé frá 11. öld.
Silfurpeningarnir fundust nærri bænum Rone, en vitað er að þar var byggð á víkingaöld. Maðurinn sem fann sjóðinn hafði fengið leyfi til að leita að fornminjum með málleitartæki. Tækið gaf með ótvíræðum hætti til kynna að málmur væri í jörðinni og eftir að hann hafði grafið niður kom í ljós mikið af silfurmynt frá víkingaöld.
Í sjóðnum er m.a. þýsk mynt frá árinu 1040. Í sjóðnum eru einnig enskir peningar. Sjóðurinn er því talinn gefa vísbendingar um viðskipti fólks á þessum tíma, en eftir er að rannsaka sjóðinn betur.
Það er ekki óvenjulegt að finna silfursjóði í Svíþjóð. Árið 2008 fann maður sem var úti að ganga á Skáni með níu ára barnabarni sínu um 7.000 silfurpeninga frá 12. öld.