Kjötát lykilatriði í þróun mannsins

Simpansakerlur hafa unga sína á brjósti í 4-5 ár, á …
Simpansakerlur hafa unga sína á brjósti í 4-5 ár, á tiltölulega stuttri ævi. Reuters

Þegar frummenn lögðu kjöt sér til munns í fyrsta sinn, og hófu í kjölfarið að stunda veiðar, markaði það tímamót þróun mannkyns á þann stað sem það stendur í dag. Hið nýja mataræði þýddi að konur gátu fyrr vanið börnin af brjósti og átt fleiri börn. Þannig varð kjötát til þess að mannkyninu fjölgaði hraðar.

Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar rannsóknar vísindamanna við Háskólann í Lundi í Svíþjóð, en þeir báru saman þróun um 70 spendýra og fundu greinilegt munstur. Með því að læra að veiða sér til matar tóku frummenn risastór skref fram á við í þróuninni, að sögn vísindamannanna. Með veiðunum skapaðist ríkari þörf til tjáskipta og notkun verkfæra. Þessir eiginleikar kröfðust stærri heila, og kjötátið gerði mönnunum kleift að þróa með sér stærri heila.

Mikill munur á öpum og mönnum

„Þetta hefur lengi verið vitað, en hinsvegar hefur engum tekist að sýna fram á svo sterk tengsl milli kjötáts og lengd brjóstagjafar, sem er mikilvægt brot af þessu púsluspili. Kjötátið stytti tímabil brjóstagjafarinnar og lengdi þar með tímann sem konur gátu eignast börn. Þetta hlýtur að hafa haft mikið að segja um þróun mannkyns," hefur vefurinn Science Daily eftir vísindamanninum Elia Psouni við háskólann í Lundi. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindatímaritinu PLoS ONE.

Konur hafa börn á brjósti í 2 ár og 4 mánuði að meðaltali, að því er fram kemur í greininni. Þetta er ekki mikið miðað við hve háum aldri mannfólkið getur náð. Sérstaklega er munurinn sláandi í samanburði við nánasta ættingja mannsins, simpansann, en kvensimpansar hafa unga sína á brjósti í 4-5 ár, en verða sjálfar að hámarki 60 ára gamlar. 

Kjötætur í dýraríkinu eiga það flestar sameiginlegt að hafa afkvæmi sín í skemmri tíma á brjósti en grasætur af sömu stærð. Munurinn á mannskepnunni og stóru öpunum virðist einna helst liggja í því að menn eru kjötætur en górillur, simpansar og órangútan apar almennt ekki nema í mjög litlum mæli. 

Kjötát er lykilatriði í þróun mannsins
Kjötát er lykilatriði í þróun mannsins Mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert