Asíska tígris-moskítóflugan nemur land

Moskítófluga.
Moskítófluga. mbl.is

Hlýnandi loftslag í norð-vesturhluta Evrópu og í Eystrasaltslöndunum gerir það að verkum að aðstæður hafa skapast þar fyrir asísku tígris-moskítófluguna, sem framan af hélt sig í álfunni sem hún er kennd við.

Fram á miðjan sjöunda áratuginn þreifst flugan einungis í Asíu og á nokkrum Kyrrahafseyjum, en hefur nú numið land í Norður- og Suður- Ameríku, Afríku, Mið-Austurlöndum og í 15 löndum í suður- og austurhluta Evrópu. Talið er að hún leynist oft í innfluttum varningi.

Þetta fullyrða vísindamenn við háskólann í Liverpool í Englandi. 

Loftslag hefur farið hlýnandi norðar í Evrópu og þar hafa nú skapast kjöraðstæður fyrir fluguna, sem væntanlega verður lítill aufúsugestur. 

Asíska tígris-moskítóflugan (Aedes albopictus) er upprunalega frá regnskógasvæðinu í suð-austur Asíu og hún getur borið með sér smit ýmissa sjúkdóma. Sannað hefur verið að hún sé sökudólgur ýmissa sjúkdómafaraldra víða um heim, þar á meðal í Frakklandi og Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert