Stærsti sigur Apple á Samsung

iPhone.
iPhone. AFP

Bandaríski tæknirisinn Apple vann sinn stærsta sigur gegn kóreska keppinautnum Samsung í gær þegar bandarískur dómstóll í Kaliforníu gerði síðarnefnda fyrirtækinu að greiða Apple rúman milljarð bandaríkjadala, jafnvirði 120 milljarða íslenskra króna, vegna höfundarréttarbrota.

Málið er eitt stærsta, ef ekki það stærsta, einkaleyfamál sem komið hefur til kasta dómstóla í Bandaríkjunum og getur haft gríðarlegar afleiðingar á markaði með snjallsíma og spjaldtölvur.

Apple fór í mál og hélt því fram að Samsung hefði brotið gegn einkaleyfum sínum á iPhone-snjallsímanum og iPad-spjaldtölvunni með því að setja á markað Samsung Galaxy-snjallsíma og -spjaldtölvuna. Kviðdómur í San Jose í Kaliforníu féllst á þau rök Apple að Samsung hefði í raun afritað vörur fyrirtækisins og gefið út undir sínu nafni.

Apple hefur höfðað sambærileg mál um allan heim en tapað þeim flestum, þar á meðal á Bretlandi þar sem dómari komst að þeirri niðurstöðu að munurinn á vörum Apple og Samsung væri sá að Apple væri einfaldlega flottari (e. cooler) vörur.

Samsung gaf út tilkynningu vegna niðurstöðunnar þar sem segir að þetta sé alls ekki lokaorðið í baráttunni. Ekki megi túlka niðurstöðuna sem sigur fyrir Apple, frekar sem ósigur hins bandaríska neytanda. Hún mun leiða til færri valmöguleika á markaði og hærra verðs.

Einnig segir að það sé sorglegt að hægt sé að veita fyrirtæki einkaleyfi á rétthyrningi með rúnuðum hornum.

Enn er óvíst hvaða áhrif þetta hefur á þær vörur sem Samsung hefur þegar sett á markað í Bandaríkjunum.

Samsung Galaxy.
Samsung Galaxy. KIM HONG-JI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert