Hvað er svona merkilegt við iPhone 5?

Hann er sagður þynnri, léttari og stærri en eldri útgáfan. Hann kemur í verslanir í Bandaríkjunum föstudaginn 21. september og einhverjir geta sjálfsagt ekki beðið. En hvað er svona merkilegt við iPhone 5?

Tæknibloggarar urðu fyrir vonbrigðum með kynningu Apple á þessari nýjustu útgáfu eins vinsælasta snjallsíma heims í San Francisco í gær. Ástæðan? Það var búið að leka upplýsingum um allar þær nýjungar sem prýða símann og því ekkert sem kom á óvart. En það er ekki þar með sagt að þeir séu ekki sáttir við tólið.

Apple lagði áherslu á þrennt í kynningunni í dag. Að síminn væri þynnri, léttari og stærri og er þar m.a. verið að vísa til þess að skjár nýja símans er 4 tommur í stað 3,5 tomma áður. Apple hefur ekki breytt skjástærðinni frá því að fyrsta útgáfa iPhone kom út árið 2007 en það hafa hins vegar aðrir framleiðendur snjallsíma gert, s.s. HTC og Samsung.

Þá er síminn aðeins 7,6 mm á þykkt (þynnri) og 112 grömm að þyngd (léttari). Þar með er iPhone 5 einn þynnsti og léttasti snjallsíminn á markaðnum.

Þá er 4G í símanum sem þýðir að hann getur tengst hraðari farsímanetum sem fyrirtæki á borð við Verizon og AT&T hafa auglýst grimmt undanfarið. Þá er A6-örgjörvi í símanum sem Apple segir að vinni tvöfalt hraðar en forverinn A5. Þá styðst síminn við iOS 6-stýrikerfi. Einnig vill Apple meina að hleðsla haldist lengur á nýrri rafhlöðu símans en þeirri gömlu og gæði myndavélarinnar, sem er fyrir löngu orðin staðalbúnaður í símum, séu meiri en áður.

Staðreyndirnar tala sínu máli: Síminn er léttari, þynnri og stærri (en eldri útgáfan). En stóra spurningin er auðvitað sú hvort hann sé betri. Notendur hans munu einir geta skorið úr um það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert