Starfsmenn Google ganga nú fram og til baka um Miklagljúfur með myndavélar á bakinu. Verið er að kortleggja gljúfrið fyrir Google kortagrunninn. Þegar má þar sjá stórkostlegt landslag hafsbotnsins, skoða Smithsonian safnið af mikilli nákvæmni og fara um skíðabrekkur British Columbia, allt í gegnum tölvuna heima í stofu.
Með kortlagningu Miklagljúfurs geta áhugasamir „gengið“ um þekkta göngustíga þessa magnaða náttúrufyrirbrigðis.
Google götukortin (e. Street View) voru fyrst gefin út árið 2007. Í fyrstu útgáfunni var hægt að skoða sig um í fimm bandarískum borgum. Nú er hins vegar hægt að heimsækja yfir 3.000 staði í 43 löndum.