Í glugga dagsins í jóladagatali vísindanna sýna nemar í efnafræði rúsínudans í flösku. Sjón er sögu ríkari.
<a href="http://www.hi.is/verkfraedi_og_natturuvisindasvid/joladagatal_visindanna">Jóladagatal vísindanna</a>er ætlað krökkum á öllum aldri og markmiðið er að auka áhuga þeirra raunvísindum og verkfræði með það fyrir augum að fjölga nemendum í greinunum til framtíðar. Samtök Iðnaðarins eru bakhjarl verkefnisins.
Efni og áhöld:
· Tóm flaska eða annað glært ílát, t.d. krukka. Stærð skiptir ekki máli
· Sprite eða annar glær gosdrykkur
· Rúsínur
· Freyðitafla (s.s. C-vítamín tafla)
Verklýsing
· Hellið gosdrykknum ofan í ílátið þannig að það sé u.þ.b. hálffullt
· Passið að hella varlega svo það freyði lítið
· Setjið nokkrar rúsínur ofan í ílátið
· Rúsínurnar munu fara upp og niður í ílátinu
· Ef ferlið gengur hægt fyrir sig má flýta fyrir með því að setja freyðitöflu ofan í ílátið
Hvernig virkar þetta?
Gosdrykkurinn inniheldur gas sem heitir koltvíoxíð og þegar gasið er uppleyst í vatni er talað um kolsýru. Við þekkjum gasið í vökvanum á loftbólunum sem það myndar. Loftbólurnar raða sér umhverfis rúsínurnar og lyfta þeim upp í átt að yfirborðinu. Þegar þangað er komið springa loftbólurnar því að koltvíoxíðið losnar burtu sem gas úr ílátinu. Þá eru ekki neinar loftbólur til að halda rúsínunum fljótandi svo þær sökkva til botns. Þetta ferli endurtekur sig í sífellu í ílátinu.