„Nú þegar jól og áramót eru að baki er um að gera að fagna nýju ári með því að hafa fisk oftar á borðum. Fiskur er nefnilega mjög heilsusamlegur matur fyrir alla aldurshópa,“ segir á vef landlæknisembættisins.
„Fiskur er góður próteingjafi og í honum eru ýmis önnur næringarefni, svo sem selen og joð. Feitur fiskur er einnig auðugur af D-vítamíni og löngum ómega-3 fitusýrum, en þessi næringarefni eru í fáum öðrum matvælum en sjávarfangi. Sérstaklega er mikilvægt að fá nóg D-vítamín yfir vetrarmánuðina,“ segir ennfremur í grein sem þær Hólmfríður Þorgeirsdóttir og Elva Gísladóttir, sem eru verkefnisstjórar næringar hjá embættinu, skrifa.
Þær segja að rannsóknir á heilsufarsbætandi áhrifum sjávarfangs hafi einkum beinst að ómega-3 fitusýrum en bæði feitur og magur fiskur virðist hafa jákvæð áhrif á heilsuna og það séu trúlega fleiri en eitt innihaldsefni þar að verki. Þess vegna sé æskilegt að borða bæði feitan og magran fisk.
Þá kemur fram, að samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði frá 2010–2011 hafi fiskneyslan á Íslandi verið svipuð að magni til og hún var árið 2002. Rétt eins og þá sé mikill munur á fiskneyslu eftir aldri og yngra fólkið borðar helmingi minna af fiski en þeir eldri.
Nánari umfjöllun er að finna á vef landlæknisembættisins.