„Það er nóg af fiskum í sjónum,“ er setning sem einstæðir einstaklingar þekkja nokkuð vel. En er það raunverulega svo að hægt sé að velja og hafna endalaust í samskiptum sínum við hitt kynið (eða sama kyn ef því er að skipta)? Blaðamaður ákvað að kafa aðeins ofan í þessa þekktu mýtu með aðstoð einstaklinga sem þekkja markaðinn vel og niðurstöðurnar eru í raun nokkuð sláandi.
Þegar horft er til háskólamenntaðs einstaklings á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir því að aðeins um 30 einstaklingar eigi vel við þig í hverjum árgangi og því ljóst að best er að hugsa sig tvisvar um áður en gefist er upp á einhverri eða einhverjum sem þú telur nokkuð álitlegan kost sem framtíðarmaka. Rétt er að taka það fram að þessi könnun er ekki fullkomlega vísindaleg auk þess sem gefa þarf sér nokkrar forsendur. Niðurstöðurnar gefa þó ágæta sýn á hvernig í pottinn er búið.
Blaðamaður er á tuttugasta og níunda ári og ákvað að skoða það ár og næstu fjögur ár þar fyrir ofan, 24 ára til 32 ár, og neðan. Var það talið líklegasta aldurbilið sem fólk er að horfa til. Fjöldi karla á þessu aldursbili er 21.242 en konur eru 20.339, eða 2260 til 2360 í hverjum árgangi.
Samkvæmt Hagstofu Íslands eru um 67% karlmanna á þessu aldursbili á lausu en 54% kvenna. Á hörfuðborgarsvæðinu búa um tveir þriðju hlutar þjóðarinnar, eða 65% karlmanna og 63% kvenna.
Ef við gefum okkur að fólk leiti að sambúðaraðila með svipað menntunarstig lækka líkurnar á því að finna þann eða þá réttu umtalsvert, en um 35% fólks á þessum aldri hefur lokið við háskólamenntun.
Hér verður aðeins horft í tölfræði fyrir gagnkynhneigt fólk, en ljóst má vera að mun færri fiskar eru í sjó þeirra sem eru samkynhneigðir. Þegar breyturnar hér að ofan hafa verið teknar með í spilið eru um 2400 til 3200 einstaklingar af gagnstæðu kyni sem koma til greina sem verðandi makar, en konur hafa úr töluvert fleiri körlum að velja.
Skapast það helst af þeirri ástæðu að mun fleiri konur eru skráðar í samband, en leiða má líkur af því að almennt séu fleiri konur með karlmönnum sem eru aðeins eldri og því skekkist myndin þegar afmarkaður aldur er valinn.
Þá þarf einnig að hafa í huga að ekki öll pör eru í skráðri sambúð og má því gera ráð fyrir því að lokaniðurstaðan komi í raun verr út en hér kemur fram.
En þótt þessar tölur líti bara nokkuð vel út er ein stór breyta sem eftir á að taka mið af. Þótt maður sé manns gaman er alls ekki svo að þú gætir vel ímyndað þér að eyða lífinu með hverjum sem er, jafnvel þótt viðkomandi sé á svipuðum aldri, með svipaða menntun og búsettur á sama svæði. Í þessari grein verður tekið nokkuð djúpt í árinni og reiknað með að einn af hverjum tíu einstaklingum geti verið mögulegur framtíðarmaki. Líklega er þessi tala þó mun lægri og er rétt að hafa það í huga.
Með þessu móti eru mögulegir fiskar í sjónum orðnir um 240 fyrir karlmenn og 320 fyrir konur. Ef því er svo deilt niður á árgang eru ekki nema um 36 karlmenn vænlegir framtíðar makar fyrir hverja konu og 27 konur vænlegir makar fyrir karlmenn.
Til að minnka möguleikana enn frekar er nokkuð ólíklegt að viðkomandi muni einhverntímann hitta alla þá 27-36 sem eru líklegir makar og eins og fyrr kom fram er gert ráð fyrir því að fólki líki nokkuð vel almennt hvoru við annað og sé tilbúið í sambúð með frekar stóru hlutfalli af hinu kyninu.