Fimm ráð vegna ebólu

Ebólan er banvæn, en hún berst ekki með lofti líkt og flensa. Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur tekið saman lista yfir fimm atriði sem hægt er að fylgja til að fyrirbyggja smit. Þess má að sjálfsögðu geta að ebóla-faraldurinn hefur ekki náð til Íslands, heldur virðist hann aðallega hafa náð til landa í Vestur-Afríku. 

Vatn og sápa. Þvoðu hendurnar reglulega með sápu og hreinu vatni og þurrkaðu þær með þurru handklæði. Mælt er með því að heilsast ekki með handabandi, því ebólan breiðist hratt út þegar fólk kemst í snertingu við líkamsvessa þeirra sem smitaðir eru af veirunni. Því ætti frekar að nota aðrar leiðir til að heilsast.

Ekki snertast. Ef þig grunar að einhver sé smitaður af ebólu, ekki snerta hann. Vírusinn getur borist með líkamsvessum á borð við þvag, hægðir, blóð, ælu, hor, tár, sæði, munnvatn og fleira. „Einnig er ráðlagt að snerta ekki föt eða sængurföt þeirra sem sýktir eru af Ebólu,“ segir í frétt BBC.

Ekki koma nálægt líkum. Ef þú telur að einhver hafi dáið úr ebólu, ekki snerta líkið, jafnvel þó að það sé hluti af greftruninni. Hægt er að smitast af ebólu, jafnvel þó sá sem smitaður var sé látinn.

Ekki borða allt kjöt. Ekki veiða, snerta eða borða kjöt af dýrum á borð við leðurblökur, apa og simpanansa. Vísindamenn telja að vírusinn hafi fyrst borist til manna með þessum hætti.

Ekki óttast. Ekki vera hræddur við heilbrigðisstarfsfólk, þau eru aðeins að reyna að aðstoða þá sem veikir eru.

Umfjöllun BBC

Vírusinn getur borist með líkamsvessum á borð við þvag,hægðir, blóð, …
Vírusinn getur borist með líkamsvessum á borð við þvag,hægðir, blóð, ælu, hor, tár, sæði, munnvatn og fleira. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert