„Þetta snýst ekki um peningana“

Markus Persson, stofnandi Mojang, sem framleiðir leikinn Minecraft.
Markus Persson, stofnandi Mojang, sem framleiðir leikinn Minecraft. Mynd/GDC Flickr

Stofnandi Minecraft, leikjafyrirtækisins sem Microsoft festi kaup á fyrr í dag, segir í kveðjubréfi sínu eftir söluna að salan snúist ekki um peningana. „Þetta snýst ekki um peninga, heldur um andlega heilsu mína.“

Svíinn Markus Persson er höfundur tölvuleiksins Minecraft. Hönnun leiksins hófst árið 2010 og tveimur árum síðar stofnaði hann fyrirtækið Mojang sem gaf leikinn út árið 2013. Nú starfa þar 40 starfsmenn. 

Persson segir að eftir að hafa unnið að gerð leiksins, og við stjórnun fyrirtækisins í þennan tíma, geti hann ekki lengur hugsað sér að bera slíka ábyrgð. „Ef ég fæ einhvern tímann tækifærið til að búa til eitthvað jafnstórt aftur, þá mun ég örugglega klúðra því,“ skrifar hann. 

Það er þó huggun harmi gegn, að fyrirtækið seldist á heila tvo og hálfan milljarð dollara og Persson mun því hagnast umtalsvert við söluna. Undanfarna mánuði hefur hann minnkað við sig vinnu og vikið úr leiðtogahlutverki í fyrirtækinu og frekar einbeitt sér að minni verkefnum. Salan á Minecraft til Microsoft hefur verið í kortunum lengi, því það lá ljóst fyrir að Persson hafði ekki áhuga á að fara sjálfur með fyrirtækið lengra. 

„Ég vil ekki verða táknmynd fyrir eitthvað sem ég skil ekki. Ég er ekki frumkvöðull, ég er ekki forstjóri. Ég er tölvunörd sem vill bara hafa sínar eigin skoðanir á Twitter,“ skrifaði Persson að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert