Elísabet drottning komin á Twitter

Elísabet II Englandsdrottning sendi sitt fyrsta tíst í dag er hún heimsótti Vísindasafnið í Lundúnum. Skrifaði hún undir færsluna á Twitter „Elizabeth R“ og er tekið fram í frétt AFP að hún hafi jafnvel tekið af sér hanskann til þess að skrifa færsluna.

Elísabet, sem er 88 ára gömul, hefur verið iðin við að fylgjast með nýjustu tækni þau 62 ár sem hún hefur setið í sæti drottningar. Hún fékk sér fyrsta farsímann árið 2001 og var það Andrew sonur hennar sem gaf henni símann. Fyrsti opinberi tölvupósturinn sem hún sendi fór frá henni árið 2009. Henni þykir hins vegar nóg um allar þær beiðnir sem hún fær frá fólki sem hún hittir að það fái að taka sjálfsmynd (selfie) af sér með henni.

Drottningin var viðstödd á nýju galleríi í Vísindasafninu en galleríið er tileinkað samskiptum og upplýsingatækni.

Skrifaði hún að það væri sér mikil ánægja að opna upplýsingaraldarsýninguna í dag á Vísindasafninu og hún vonaðist til þess að fólk hefði gaman af því að skoða sýninguna. 

„It is a pleasure to open the Information Age exhibition today at the @_ScienceMuseum and I hope people will enjoy visiting. Elizabeth R.“

Skömmu síðar fór næsta tíst í loftið frá sama aðgangi þar sem tekið var fram að fyrri færslan væri send af drottningunni sjálfri og kassamerkinu #TheQueenTweets bætt við.

Þótt fréttir af twitterfærslu Elísabetar hafi farið sem eldur í sinu um Twitter verður að segjast að hún hefur ekki alltaf brugðist vel við nýjungum.

Sendiherra Bandaríkjanna í Lundúnum, Matthew Barzun, segir að Elísabet hafi sagt honum eitt sinn að sér fyndist það skrýtið þegar fólk kæmi upp að henni vopnað snjallsímum til þess að taka mynd af sér með henni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert