Vísindaveisla í Öskju

Mikið er um að vera í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, í dag, en þar stendur verkfræði- og náttúrvísindasvið HÍ fyrir Vísinda- og tæknidegi. Þar halda vísindamenn erindi um allt milli himins og jarðar, Sprengjugengið verður með tilraunir og þá verður glænýtt Holuhraun til sýnis.

Vísindaveislan hófst klukkan 10 í morgun og stendur hún yfir til klukkan 16. Markmiðið er að leyfa fólki á öllum aldri að kynnast vísindarannsóknum við fræðasviðið og ýmsum undrum vísindanna. Margir voru komnir í heimsókn þegar ljósmyndari mbl.is leit þar við fyrir hádegi.

Yfir 30 vísindamenn við verkfræði- og náttúruvísindasvið halda stutt erindi á  mannamáli um eigin hugðarefni, sem spanna allt frá jöklum og fuglalífi til stjörnufræði og þróunar ferðaþjónustu á Íslandi.

Á staðnum verður líka glænýtt Holuhraun til sýnis auk þess sem Sprengjugengið verður með sýnitilraunir fyrir gesti og gangandi. Fulltrúar Vísindasmiðju HÍ verða á staðnum með tæki og tól og þá verður hægt að ferðast um alheiminn í stjörnutjaldinu. Enn fremur kíkir Ævar vísindamaður í heimsókn milli kl. 12-14 og Team Spark, hópur verkfræðinema við HÍ, sýnir rafknúinn kappakstursbíl sem hópurinn hannaði og fór með í alþjóðlega hönnunar- og kappaksturskeppni á Silverstone-brautinni í sumar.

Á Vísinda- og tæknideginum verða þeir Sigurður H. Richter og Örnólfur Thorlacius heiðraðir fyrir störf sín í þágu vísindamiðlunar á Íslandi, sér í lagi fyrir þáttinn þeirra Nýjasta tækni og vísindi. Af því tilefni verða nokkrir vel valdir þættir rifjaðir upp og sýndir í Öskju.

Vísinda- og tæknidagurinn er öllum opinn. Nánar um dagskrána hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert