Skutlar virka ekki á halastjörnum

Myndir af yfirborði halastjörnunnar undir Philae sem teknar voru með …
Myndir af yfirborði halastjörnunnar undir Philae sem teknar voru með ROLIS-myndavélinni um borð í farinu.

Yfirborð halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko er svo hart að skutlar sem áttu að tjóðra lendingarfarið Philae við það náðu ekki að stingast ofan í það. Þá bendir ekkert til þess að halastjarnan hafi segulsvið. Þetta er á meðal fyrstu niðurstaðna rannsókna Philae sem kynntar voru á þingi sambands bandarískra jarðeðlisfræðinga í gær.

Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA sögðu meðal annars frá því að vegna þess að Philae skoppaði í lendingum sínum á halastjörnunni hafi mælitæki um borð náð að kanna segulsvið á fjórum mismunandi stöðum. Það greindi hins vegar hvergi vott um segulvirkni. Hún sé minni en nokkuð sem mælt hefur verið á jörðinni eða tunglinu. Eini staðurinn sem svo lítil segulvirkni hefur mælst er smástirnið Eros.

Mælingar Philae sýna einnig að yfirborð halastjörnunnar er grjóthart og þakið um 15 sentímetra þykku ryklagi. Hins vegar veldur það vísindamönnum heilabrotum að myndir frá geimfarinu sýna ekki þetta ryklag sem mælitæki nema.

Nýjar myndir frá yfirborði halastjörnunni voru sýndar á þinginu. Philae hefur tekið fleiri myndir en vegna þess að geimfarið er að senda svo mikið af gögnum til jarðar verður bið á því að menn fái að sjá þær. Philae liggur nú í dvala í skugga kletts en enn er ekki vitað nákvæmlega hvar á halastjörnunni hún er. Vísindamennirnir segjast hins vegar hafa fulla trú á því að farið finnist þegar fleiri myndir berast.

Engu að síður hafa þeir mun betri hugmynd um hvernig Philae snýr þar sem hún liggur. Hún er nú sögð fá um 4 1/2 klukkustund af sólarljósi á dag en eftir því sem halastjarnan nálgast sólina muni sólarstundum hennar fjölga. Þá geti farið möguleg ræst sig á nýjan leik. Ekkert liggur fyrir um hvenær það gæti gerst nákvæmlega, hugsanlega þó frá og með febrúar eða mars.

Litmynd sem könnunarfarið Rosetta tók af halastjörnunni og birt var …
Litmynd sem könnunarfarið Rosetta tók af halastjörnunni og birt var í síðustu viku. ESA/Rosetta/MPS for OSIRIS Team MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert