Ferðalag Dawn senn á enda

Stjórnendur könnunarfarsins Dawn eru nú að rifna úr spenningi en geimfarið kemst á braut um dvergreikistjörnuna Ceres á föstudag. Á meðal þeirra spurninga sem brenna á vörum þeirra er hvað hefur valdið björtum blettum sem sést hafa á dökku yfirborðinu eftir því sem Dawn nálgast hnöttinn.

Um sjö og hálfs árs ferðalagi Dawn að Ceres lýkur á föstudag en á leiðinni kom geimfarið við hjá smástirninu Vestu á milli 2011 og 2012. Eftir um sex vikur mun farið hefja vísindarannsóknir sínar á dvergreikistjörnunni af fullum þunga og munu þær standa yfir þar til leiðangrinum lýkur í júní 2016. Þetta er í fyrsta skipti sem manngert far rannsakar dvergreikistjörnu en skammt er að bíða þess næsta. Geimfarið New Horizons nálgast nú Plútó og á að fljúga fram hjá nú í sumar.

Eðli tveggja ljósra bletta sem menn sáu á yfirborðinu eftir því sem Dawn hefur nálgast Ceres er á meðal þess sem vísindamennirnir vilja fræðast nánar um. Þeir liggja nærri hvor öðrum í um 92 kílómetra breiðum gíg sem er á um 19 breiddargráðu Ceresar. 

„Ceres hefur komið okkur virkilega á óvart og fyrstu myndirnar hafa leitt í ljós kennileiti sem valda heilabrotum og hafa gert teymið, og ég held ýmist annað fólk, afar spennt,“ segir Carol Raymond, yfirvísindamaður Dawn-leiðangursins hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA.

Gætu verið bráðinn ís eða leifar loftsteina

Annar bletturinn er tvisvar sinnum bjartari en hinn en birtustigið er væntanlega af völdum íss eða salta sem endurvarpa sólarljósi. Mögulegt er talið að loftsteinar hafi myndað blettina. Þeir hafi annaðhvort búið til gíg og brætt ís undir yfirborðinu eða að leifar þeirra séu efnið sem endurvarpar ljósinu.

Ólíklegra er að blettirnir séu afleiðing gosa úr litlum íseldfjöllum. Slík virkni tengist yfirleitt sprungum eða hæðum en engin slík kennileiti hafa sést fram að þessu.

Ceres er stærsta fyrirbærið í smástirnabeltinu sem liggur á milli sporbrauta Mars og Júpíters. Hann er skilgreindur sem dvergreikistjarna og er um 975 kílómetrar í þvermál. Massi Ceresar er talinn nema um þriðjungi heildarmassa smástirnabeltisins. Engu að síður er dvergreikistjarnan sannarlega dvergvaxin þegar hún er borin saman við tunglið okkar. Heildarmassi smástirnabeltisins er þannig aðeins talinn nema um 4% af massa tunglsins.

Frétt á vef Space.com um leiðangur Dawn til Ceresar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert