Fágætir kettlingar koma í heiminn

Tveir skuggahlébarðar komu í heiminn í dýragarðinum í Miami í þessum mánuði, dýrahirðum og verndunarsinnum til mikillar ánægju. Heimkynni tegundarinnar eru skógar Suðaustur-Asíu en talið er að hún telji færri en 10.000 lifandi dýr.

Skuggahlébarðinn er fjarskyldur ættingi afríska hlébarðans.

Samkvæmt talsmönnum dýragarðsins komu báðir kettlingarnir í heiminn 9. mars sl. Þeim og móður þeirra er haldið útaf fyrir sig, til að takmarka utanaðkomandi streituvalda og gefa þeim tækifæri til að mynda tengsl. Báðir kettlingarnir eru kvenkyns.

Foreldrar kettlinganna, Serai og Rajasi, komu bæði í heiminn árið 2011, í öðrum bandarískum dýragörðum. Þetta er í annað sinn sem þau eignast kettlinga.

Samkvæmt upplýsingum frá dýragarðinum vegnar bæði móður og afkvæmum vel. Kettlingarnir skarta þegar þeim dökku blettum sem tegundin rekur nafn sitt til, en á ensku er talað um „the clouded leopard“.

Skuggahlébarða er að finna í Kína, Búrma og Malasíu. Fullorðin dýra vega á bilinu 14 til 23 kg og eru með langa rófu en stutta fætur og stóra hramma. Skuggahlébarðar éta fugla og spendýr á borð við apa, dádýr og puntsvín, en eru sjálf drepin af mönnum sem ágirnast fallegan feldinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert