Er Adam Sandler með lausnina á Alzheimer?

AFP

Margir þekkja kvikmyndina 50 first dates með leikaranum Adam Sandler í aðalhlutverki. Hvað sem fólki kann að finnast um gæði myndarinnar varð hún til þess að Tamara Rusoff-Hoen ákvað að gera svipaða tilraun á móður sinni sem glímir við Alzheimer.

Louise Irving er 94 ára gömul og glímir sökum Alzheimer-sjúkdómsins við minnisleysi. Dóttir hennar, Tamara, ákvað að útbúa stutta myndbúta þar sem hún heilsar móður sinni með söng. Á hverjum morgni þegar Louise vaknar horfir hún á myndbandið þar sem Tamara rifjar upp gamlar minningar og sögur af Louise. 

Er þetta hluti af tilraunarverkefni við hebreska elliheimilið í Riverdale í New York þar sem reynt er að fá fólk sem þjáist af elliglöpum til að aflétta hinni þokukenndu hulu sem hylur minningarnar í huga þeirra á hverjum morgni.

Hugmyndin er fengin frá kvikmyndinni 50 first dates sem fjallar um mann (Adam Sandler) sem verður ástfanginn af konu (Drew Barrymore). Vandamálið er bara að konan þjáist af minnisleysi og því þarf hann að endurtaka fyrsta stefnumótið í sífellu. 

„Það var ansi skrýtið að horfa á þessa mynd en hún fékk mig til þess að hugsa, hvernig getum við reynt að yfirfæra þetta á okkar vistmenn?“ segir Charlotte Dell, yfirmaður lækninga á heimilinu.

„Við erum að reyna að fá fólk til þess að vakna við ljúfar æskuminningar án lyfja og vonumst þannig til þess að afgangurinn af deginum verði ánægjulegur. Er til betri leið að vakna en að heyra ættingja þína syngja Góðan dag?“

Robert Abrams, læknir við spítala í New York, segir hugmyndina nýstárlega og fallega. „Þú ert með hóp af fólki sem glímir við elliglöp og getur ekki skilið samhengi hlutanna í kringum sig. Fólki líður því oft illa og það er oft hrætt og heldur að fjölskyldan hafi yfirgefið það,“ segir Abrams.

Sérfræðingar segja að þessi hugmynd geti gagnast sumum, en ekki sé hægt að treysta á að þetta komi öllum til góðs. Á elliheimilinu í Riverdale hafa aðeins verið gerðar tilraunir á Alzheimersjúklingum með sjúkdóminn á frumstigi. 

Sjá frétt AOL.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert