Kenndi gestum að stökkva af halastjörnu

Mark McCaughrean frá ESA á sviði Eldborgar í Hörpu í …
Mark McCaughrean frá ESA á sviði Eldborgar í Hörpu í morgun. Twitter/Sævar Helgi Bragason

Gestir haustráðstefnu Advania fengu sýnikennslu í hvernig hægt er að sleppa frá halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko í Hörpu í morgun. Mark McCaughrean frá evrópsku geimstofnuninni ESA stóð fyrir kennslunni og sagði gestum frá Rosettu-leiðangrinum til halastjörnunnar sem fangaði ímyndunarafl jarðarbúa.

McCaughrean er yfirmaður vísindarannsókna og geimkönnunar hjá ESA og var fyrsti ræðumaðurinn á ráðstefnunni sem hófst í Eldborgarsal Hörpu í morgun. Eftir stutta kynningu frá Sævari Helga Bragasyni, formanni Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, lýsti McCaughrean í stuttu máli hversu einstakur leiðangur Rosettu hefur verið.

ESA hafi áður sent geimfar að halastjörnu þegar Giotto-könnunarfarið flaug fram hjá Halley-halastjörnunni árið 1986. Giotto gat hins vegar aðeins flogið fram hjá halastjörnunni þar sem hún ferðaðist svo hratt, 68 km/sek, að engin leið var að ná henni. Líkti McCaughrean þessu við það að reyna að eiga samræður við spretthlauparann Usain Bolt í miðju 100 metra hlaupi.

Eftir tíu ára undirbúning og rúmlega tuttugu ára undirbúning komst Rosetta að halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko í ágúst í fyrra. McCaughrean lýsti furðuveröldinni sem halastjarnan er og lendingarfarið Philae lenti á í nóvember.

Halastjarnan er aðallega úr ís en hún er mun eðlisléttari en ísjakar á jörðinni. Þannig myndi hún fljóta á vatni og mun stærri hluti hennar myndi standa upp úr því en af hefðbundnum borgarísjökum.

Viðtal mbl.is við McCaughrean

Þá er þyngdarkraftur halastjörnunnar svo veikur, aðeins einn hundrað þúsundasti hluti af þyngdarkrafti jarðar, að svokallað basejump væri lítið spennandi. Það tæki mann tuttugu mínútur að lenda aftur sem hoppaði fram af hundrað metra háum kletti á yfirborði hennar og hann hefði enga þörf fyrir fallhlíf.

Þeir sem hefðu það í hyggju þyrftu þó að fara varlega. Með átaki sem jafngilti því að hoppa fjóra sentímetra upp í loftið á jörðinni gætu menn náð nægilegum hraða til þess að sleppa undan þyngdarkrafti halastjörnunnar og svífa út í geim. Fékk McCaughrean salinn í lið með sér og kenndi gestum hvernig þeir gætu náð lausnarhraða halastjörnunnar með eigin stökkkrafti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert