Nískuleg brúðkaup fararheill

Brúðkaupsiðnaðurinn lætur ekki deigan síga. Mynd frá Damaskus í vikunni.
Brúðkaupsiðnaðurinn lætur ekki deigan síga. Mynd frá Damaskus í vikunni. AFP

Neikvæð tengsl eru á milli kostnaðar við brúðkaupsveislu og trúlofunarhringa og lengdar hjónabands og þau hjón sem eyddu sérstaklega litlu voru gift lengur en meðalhjón. Þetta er meðal þess sem tveir hagfræðingar fengu út úr gögnum um hjúskap og brúðkaupsfögnuði um 3000 aðspurðra Bandaríkjamanna.

Ástin markaðsvædd

Gríðarstór brúðkaupsiðnaður er vestanhafs sem talinn er velta yfir 50 milljörðum dala árlega og merkja vísindamennirnir skýra aukningu í markaðsvæðingu ástarinnar og skilaboðum sem hvetja eiga til eyðslu í íburðarmikil brúðkaup. Sem dæmi nefna þeir að tímaritið Bride's birti árið 1959 lista með 22 atriðum sem þyrfti að huga að fyrir brúðkaupið og gerði ráð fyrir tveimur mánuðum í skipulagninguna. Á tíunda áratugnum birti það hins vegar lista með 44 atriðum sem ætla skildi heilt ár í að fullnægja.

Þá er einnig vel þekkt hvernig de Beers einokunarfyrirtækið bjó til eftirspurn á öndverðum hluta 20. aldar eftir demantshringum sem tákn um eilífa ást og bjuggu til seinnameir væntingar um tveggja mánaða laun sem verðviðmið þegar kaupa ætti demantshring.

Þessi þrýstingur til þess að eyða miklu fé í að búa í haginn fyrir hjónabandinn hefur hins vegar ekki byggst á því að eyðslan skili sér í hamingjusamara, eða a.m.k. lengra, hjónabandi að mati hagfræðinganna Hugo M. Mialon og Andrew M. Francis.

Stór og ódýr veisla best

Sem fyrr segir fundu þeir Mialon og Francis tengsl milli lengri hjónabanda og ódýrra brúðkaupa og giftingarhringa. Í viðtali við CNN sagði Mialon það tilgátu að þau pör sem eigi það til að halda ódýrt brúðkaup séu líklegri til þess að passa vel saman. „Eða þá að ódýrt brúðkaup leysi þau frá fjárhagsáhyggjum sem annars gætu sett álag á hjónabandið.“

Þær konur sem eyddu meira en $20.000 í brúkaupið skildu 1,6 sinnum hraðar en konur sem eyddu á milli $5.000-$10.000 og þau pör sem eyddu undir $1000 voru ólíklegri en meðalpör til þess að skilja.

„Almennt sýna niðurstöður okkar lítið sem gætu stutt þau almennu skilaboð giftingariðnaðarins um tengsl dýrs brúðkaups og jákvæðrar útkomu hjónabanda,“ sagði Francis.

Rannsóknin sýndi þó fram á að tengsl voru milli (hærri) fjölda brúðkaupsgesta og lengd hjónabanda. „Hugsanlega eru þetta félagsleg áhrif, þ.e. meiri stuðningur vina og fjölskyldu hjálpar pörum í gegnum erfiða kafla í hjónabandinu. Hugsanlega er þetta vegna þess að þau pör sem eiga marga vini og nána fjölskyldumeðlimi eru þau sem eiga síður til að skilja.“

Rannsóknin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert